Fara í efni

Barnamenning, Verðandi, heimsfrægur grínisti, Adele, álfar og söngleikir – allt að gerast í apríl

Eins og vanalega er aprílmánuður helgaður  Barnamenningarhátíð og í ár verður engin breyting þar á og heilmikið um að vera hjá Menningarfélaginu í tilefni hátíðarinnar. Tónleikar Upptaktsins verða í Hamraborg 7. apríl en þá munu atvinnuhljóðfæraleikarar flytja verk ungra tónskálda. Myndlistarsýning nemenda Brekkuskóla opnar í Hamragili föstudaginn 19. apríl. Hæfileikakeppni Akureyrar verður haldin í Hamraborg 24. apríl en þá munu krakkar í 5.-10. bekk stíga á svið. Sumardaginn fyrsta er svo komið að Emmsjé Gauta og Skandal sem verða með sannkallaða tónlistarveislu á sviði Hamraborgar. Að lokum verður okkur boðið í Óvissuævintýri Suzuki deildar Tónlistarskólans á Akureyri í Nausti 30. apríl.

Áhugafólk um dans ætti ekki að láta Danstímann með Diljá og Elmu fram hjá sér fara. Elma Rún Kristinsdóttir kennir flotta rútínu við nýjasta smellinn hennar Diljá sem syngur live með.

Í apríl verða þrennir viðburðir sem hlutu styrk frá VERÐANDI listsjóði. Þann 12. apríl verður tónlistarveislan Þau í Hofi þar sem flutt verður ný og spennandi tónlist við ljóð norðlenskra skálda. Hjartans tónar, rómantísk dægurlög fer fram í Hömrum 19. apríl en þá mun söngkonan Rósa María ásamt hljómsveit bjóða tónleikagestum á stefnumót við ástina. Samtímadansverkið  Hér á ég heima verður í Black box 26. apríl en í verkinu segir frá aðlögunarferli manneskju sem þarf að festa rætur í nýju umhverfi. 

Tónleikar til heiðurs  Adele fara fram í Hamraborg 13. apríl en þá munu stórsöngkonurnar Elísabet Ormslev og Stefanía Svavars flytja bestu lög Adele ásamt einvala liði listamanna.

Ráðstefnan Huldufólk og Álfar í heimabyggð fer fram í Hömrum 20. apríl. Ráðstefnan er öllum opin og verður sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi, þar sem erindin verða öll á íslensku og tileinkuð menningararfinum okkar sem snýr að huldufólki og álfum og heimildum þar að lútandi.

Heimsfrægi grínistinn, tónlistarmaðurinn, leikarinn og rithöfundurinn Reggie Watts mætir í Samkomuhúsið fimmtudaginn 25. apríl. Reggie Watts er hvað frægastur fyrir að vera hljómsveitarstjórinn í The Late Late Show with James Corden

Arctic ópera flytur  söngleikjaprógram í Hömrum 28. apríl þar sem átta söngvarar munu flytja þekktustu sönglög og dúetta söngleikjanna.

Til baka