Fara í efni

Tónlistarsmiðja með Steinunni Jónsdóttur og Hrafnkeli Erni Guðjónssyni

Það er loksins komið aftur að hinni vinsælu tónlistarsmiðju Upptaktsins! 

TAKTUR OG TEXTI
Sunnudaginn 1. febrúar í Menningarhúsinu Hofi
Ekkert þátttökugjald!

Leiðbeinendur að þessu sinni eru enginn önnur en Steinunn Jónsdóttir þekkt úr hljómsveitunum Amabadama og Reykjavíkurdætrum og hinn þjóðþekkti Hrafnkell Örn Guðjónsson sem hefur spilað með Agent Fresco, Úlfi úlfi, Emmsjé Gauta, Páli Óskari og fleirum. 

Skipt verður í tvo hópa: 
5.-7. bekkur 1. febrúar kl 12-14:30 - HÉR má sækja um 
8.-10. bekkur - 1. febrúar kl 15-17:30 - HÉR má sækja um 

ATH! Takmarkaður fjöldi þátttakenda! Umsóknarfrestur til 28. janúar á miðnætti!
*Ef lágmarksþátttaka næst ekki munu hóparnir verða sameinaðir. 

Taktur og texti er tónlistarsmiðja sem Steinunn Jónsdóttir og Hrafnkell Örn Guðjónsson leiða.
Smiðjan er byggð á lagasmíða áfanga sem þau kenna í Fellaskóla þar sem raftónlist mætir íslenskri textagerð.

Þátttakendur fá góða innsýn inn í það hvernig lag verður til með því að semja saman takt í tölvuforriti og texta við með dyggri aðstoð leiðbeinandanna. Þá fá þau sem áhuga hafa að spreyta sig á því að syngja eða rappa inn á lagið og útkoman verður lag samið af börnunum sjálfum. Smiðjan er þannig góður grunnur fyrir laga- og textahöfunda framtíðarinnar og í henni öðlast börnin hin ýmsu tæki og tól sem þau geta nýtt sér í sköpunarferlinu. 

Þátttakendur þurfa ekki að hafa neinn grunn í tónlistar- eða textagerð, bara brennandi áhuga á því að prófa sig áfram og vera tilbúin að leyfa sköpunarkraftinum að fá lausan tauminn. Þau sem spila á  hljóðfæri mega þó endilega taka þau með sér. 

 

Um leiðbeinendurnar:

Hrafnkell Örn Guðjónsson er tónlistarmaður og trommuleikari sem hefur spilað hérlendis og erlendis með ýmsum listamönnum, eins og Agent Fresco, Emmsjé Gauta, Páli Óskari og Úlfur Úlfur. Hann er menntaður í klassísku slagverki hjá Tónmenntaskóla Reykjavíkur og í djassi og rokki hjá Tónlistarskóla FÍH og hefur kennt börnum tónlist meðfram því að vera starfandi tónlistarmaður í um tvo áratugi.

Steinunn Jónsdóttir hefur starfað sem tónlistarkona í yfir áratug, en hún er einn af forsprökkum hljómsveitanna Amabadama og Reykjavíkurdætur. Með böndunum hefur hún komið fram á tónleikum víða um heim, gefið út plötur og samið fjölda laga sem mörg hver hafa náð miklum vinsældum, má þar nefna Hossa hossa með Amabadama og Tökum af stað með Reykjavíkurdætrum. Hún lærði á víólu á sínum yngri árum og söng í kór en í dag stundar hún nám í rytmískum söng við Tónlistarskóla FÍH. Samhliða tónlistarferlinum hefur Steinunn unnið sem listgreinakennari og kennt bæði dans, laga- og textasmíðar.

Saman hafa þau farið víða um land og samið tónlist með íslenskum börnum og ungmennum. Hér má hlýða á lög sem börn í Grunnskóla Grundarfjarðar sömdu í Taktur og texta smiðju síðasta vor: 

https://open.spotify.com/album/6cpkkAcwwIzmUwHOiZeYWL

Smiðjan gæti kveikt áhuga þátttakenda að taka þátt í Upptaktinum, senda inn lag eða hugmynd að lagi í kjölfar hennar. Það er þó engin krafa um að þátttakendur sendi inn lag í Upptaktinn að henni lokinni.

Skipt verður í tvo hópa:
5.-7. bekkur 1. febrúar kl 12-14:30 - HÉR má sækja um
8.-10. bekkur - 1. febrúar kl 15-17:30 - HÉR má sækja um

ATH! Takmarkaður fjöldi þátttakenda! Umsóknarfrestur til 28. janúar á miðnætti!
*Ef lágmarksþátttaka næst ekki munu hóparnir verða sameinaðir.