VERÐANDI - listsjóður

Veittir voru styrkir í fyrsta sinn úr listsjóðnum VERÐANDI í Menningarhúsinu Hofi 31. janúar 2019. Það voru 16 umsóknir sem bárust sjóðnum og 10 verkefni sem fengu brautargengi á þessu fyrsta úthlutunartímabili sem er 4. janúar - 31. júlí í ár. Styrkþegarnir tíu munu standa fyrir fjölbreyttum viðburðum í Menningarhúsinu Hofi á þessum tímabili, sem dæmi með nefna Piazolla kvintett tónleikum, dansgjörningi með frumsaminni tónlist, kórtónleikum, útgáfutónleikum, hátíðardagskrá til heiðurs Elísabetu Maríu, jasstónleikum, klassískum tónleikum og popptónleikum ásamt bíótónleikum með lúðrasveit.

„Það var afar ánægjulegt að fá svo fjölbreyttar umsóknir, sjá metnað listafólksins og vilja til að nýta sér aðstöðuna í menningarhúsinu Hofi fyrir þeirra flottu og krefjandi viðburði. Við starfsfólk Menningarfélagsins hlökkum til að taka á móti þeim í hús. Þessir viðburðir munu án efa bæta litum í annars litríkt og fjölbreytt listalíf hér á Akureyri og vonandi verða mörgum til gleði og stuðnings til að láta drauma sína rætast,“ segir Kristín Sóley Björnsdóttir viðburðastjóri Menningarfélas Akureyrar og verkefnastjóri Verðanda.

Megintilgangur sjóðsins er að styrkja listafólk til að nýta Menningarhúsið Hof og Samkomuhúsið sem vettvang fyrir listsköpun sína. Listsjóðurinn á að auðvelda ungu listafólki og þeim sem starfa utan stofnana að nýta sér þá fyrirmyndaraðstöðu sem húsakynni Menningarfélags Akureyrar búa yfir, auk þess að stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum og nýta þá möguleika sem þar eru fyrir fjölbreytta viðburði.

Listsjóðurinn VERÐANDI varð til formlega 15. nóvember á síðasta ári þegar Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, Þórleifur Stefán Björnsson, formaður stjórnar Menningarfélagsins Hofs, og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar, undirrituðu samkomulag um stofnun hans.

Auglýst hefur verið eftirumsóknum í Listjóðinn Verðandi fyrir tímabilið 1. september 2019 til 31. júlí 2020.

Nánari upplýsingar HÉR

 

Styrkþegar VERÐANDI 4. janúar - 31. júlí 2019:

Jón Þorsteinn Reynisson - Piazzolla kvintett tónleikar.

Fanney Kristjáns Snjólaugardóttir  - Hátíðardagskrá til heiðurs Maríu Elísabetu Jónsdóttur tónskálds, organista og kvenréttindakonu frá Grenjaðarstað í tilefni af 150 ára afmælisári hennar

Yuliana Palacios – Dalalæða, dansgjörningur.

Chrissie Telma Guðmundsdóttir – Klassískir tónleikar með Chrissie Telmu Guðmundsóttur fiðluleikara og Einari Bjarti Egilssyni píanóleikara

Helga Kvam  - Ástarsögur, tónleikar

Tinna Björg Traustadóttir - Tónleikar til heiðurs Britney Spears

Rafnar Orri Gunnarsson  -  Útgáfutónleikar fyrir plötu sína VODA

Erla Mist Magnúsdóttir -  Djass og kósíheit

Lúðrasveitin Svanur – bíótónleikar við kvikmyndina Hershöfðinginn með nýrri tónlist eftir Davíð Þór Jónsson.

Róar Kvam og Kvennakórinn Emblurnar – ADIEMUS, tónleikar.