Fara í efni

Byggingarsagan

Saga Menningarhússins Hofs á Akureyri nær aftur til ársins 1999, þegar ákvörðun um byggingu hússins var tekin, enda þörfin fyrir góða aðstöðu til tónleikahalds og aðra listviðburði óumdeild.

Árið 1999 ákvað ríkisstjórn Íslands að veita stofnstyrki til uppbyggingar menningarhúsa utan höfuðborgar- svæðisins með það að markmiði að bæta aðstöðu til menningar- og listastarfsemi og efla um leið þá starfsemi. Á fundi ríkisstjórnar 11. febrúar 2003 var ákveðið að veita einum milljarði króna til byggingar menningarhúsa á Akureyri og í Vestmannaeyjum. Þann 7. apríl sama ár undirrituðu Tómas Ingi Olrich, þáverandi menntamálaráðherra, og Kristján Þór Júlíusson, þáverandi bæjarstjóri á Akureyri, samkomulag um byggingu menningarhúss á Akureyri. Skipuð var verkefnisstjórn, sem gerði tillögu um starfsemi í fyrirhuguðu menningarhúsi. Miðað skyldi við að húsið yrði um 3.500 m² og heildarkostnaður við verkið yrði ekki meiri en 1.200 m.kr. á verðlagi apríl 2003.

Verkefnisstjórnin skilaði greinargerð í byrjun nóvember 2003 til menntamálaráðuneytisins og Akureyrarbæjar. Í lok greinargerðarinnar var m.a. lagt til að menningarhúsið á Akureyri yrði á uppfyllingunni sunnan Strandgötu og austan Glerárgötu. Að efnt yrði til opinnar samkeppni um hönnun hússins í samræmi við samkeppnisreglur AÍ og að skipuð yrði 5 manna dómnefnd til að sjá um samkeppnina og skila niðurstöðum til menntamálaráðuneytis og Akureyrarbæjar. Í kjölfarið var skipuð dómnefnd til að hrinda þessu verki í framkvæmd.

Opnunarhátíð Hofs og vígsla hússins var á Akureyrarvöku dagana 27. til 29. ágúst 2010.

Byggingin

Skóflustunga að Hofi var tekin laugardaginn 15. júlí 2006, en framkvæmdir hófust í ágúst 2006. Þegar framkvæmdir við grunn hússins hófust kom fram talsvert sig og einnig seig jarðvegur mishratt og mismikið og var í kjölfarið ákveðið setja kjallara undir allt húsið.

Vegna stækkunar á kjallara um 2.300 m² og ýmissa breytinga á hönnunarferli stækkaði húsið um 537 m². Breytinguna má skýra m.a. með stækkun á veitingaaðstöðu, verslunarrými, tónlistarskóla og forsal tónlistarsalar ásamt ýmsum öðrum úrbótum sem gerðar voru á hönnunartíma. Forsendur verkefnisins breyttust því talsvert frá því sem kom fram í sampkeppnisgögnum, þ.e.a.s. brúttó stærð hússins fór úr 3.500 m² í 7.413 m².

Stuðlabergið utan á húsinu er upprunnið úr námu í Hrepphólum í Hrunamannahreppi. Þyngdin á stuðlaberginu er um 300 tonn og flatarmál um 1600 fermetrar.

Aðalhönnuður menningarhússins er Arkþing. Helstu samstarfsaðilar fyrirtækisins voru: 

  • Arkitema, Fredriksgade 32, DK-8000 Århus
  • TÓV ehf., Óðinstorgi 7, 101 Reykjavík (burðarþol)
  • VST ehf., Glerárgötu 30, 600 Akureyri (jarðvinna-stálþil)
  • VN ehf., Hofsbót 4, 600 Akureyri (lagnir og loftræsing)
  • Raftákn ehf., Glerárgata 34, 600 Akureyri (raflagnir og stjórnkerfi)
  • Akustikon AB, Baldursgatan 4, 411 02 Göteborg (hljóðtæknihönnun)
  • VSI ehf., Hamraborg 11, 200 Kópavogur (brunahönnun)

Helstu verktakar voru:

  • Árni Helgason (Jarðvegsskipti og grundun)
  • Ístak hf (Uppsteypa)
  • Rafmenn ehf. (Rafkerfi)
  • Útrás ehf (Stálsmíði)
  • Klemenz Jónsson ehf, (Dúklögn)
  • Völvusteinn ehf (Gifsveggir o.fl.)
  • Blikkrás ehf (Loftræsting)
  • KONE ehf (Lyftur)
  • Málningarmiðstöðin (Málun)
  • Magnús Gíslason ehf (Múrverk)
  • Haraldur Helgason (Pípulögn)

Hér geturðu lesið um hönnun hússins.