Fara í efni

Um Hof

Menningarhúsið Hof er staðsett í miðbæ Akureyrar og er eitt af helstu kennileitum bæjarins. Hringlaga byggingin með klæðningu sem er innblásin af íslensku stuðlabergi, vekur verðskuldaða athygli í bæjarmyndinni og dregur að sér fjölda gesta allan ársins hring. Í Hofi er upplýsingamiðstöð ferðamanna húsið er því vinsæll viðkomustaður ferðamanna sem heimsækja Akureyri. Glæsileg hönnun hússins að innan sem utan skapar notalegt andrúmsloft og og vekur mikla athygli gesta og gangandi. 

Menningarhúsið Hof er miðpunktur menningar á Norðurlandi og þjónustar íbúa á öllum norðurausturhluta landsins með fjölbreyttu úrvali viðburða. Árlega sækja þúsundir gesta alls staðar að af landinu, auk erlendra gesta, Hof til að sækja menningar- og listviðburði, sinfóníutónleika, ráðstefnur, fundi og svo mætti lengi áfram telja. 

Rekstur Menningarhússins Hofs er í höndum Menningarfélags Akureyrar sem sér að auki um framleiðslu á mörgum viðburðum sem fram fara bæði í Hofi og Samkomuhúsinu. Þess utan sér Menningarfélag Akureyrar um útleigu á fjölbreyttum rýmum Hofs og Samkomuhússins fyrir hvers kyns viðburði og stuðlar þannig að auknu framboði og fjölbreytileika í öflugu menningarlífi á Norðurlandi.