Fara í efni

Hönnunin

Aðalhönnuður Menningarhússins Hofs er Arkþing. 

Öll húsgögn og laus húsbúnaður í Hofi er hannað og framleitt af hönnunarfyrirtækinu Sýrusson, en aðalhönnuður og eigandi fyrirtækisins er Reynir Sýrusson. 

Sætin í aðalsal Hofs, Hamraborg, eru einnig íslensk hönnun og framleiðsla frá fyrirtækinu Prologus. Áklæðið á sætunum er hannað þannig að ef sætið er tómt gerir áklæðið það að verkum að það er eins og þar sitji einn maður í jakkafötum. Þannig hafa tóm sæti ekki áhrif á hljómburð.

Hönnunarsamkeppni vegna byggingar menningarhúss á Akureyri var haldin árið 2004.

Samtals bárust 33 tillögur í samkeppnina en dómnefndin valdi tillögu teiknistofunnar Arkþings. Höfundar völdu hringformið, en í gegnum bygginguna liggur einhverskonar “fljót” eða göngugata sem skiptir húsinu í tvennt. Húsið yrði klætt að utan með íslensku stuðlabergi.

Hamragil

Við hönnun menningarhússins kom fram sú hugmynd að bæta við einni hæð og hafa tónlistarskóla bæjarins á 3. hæð hússins. Með þessari hugmynd var einkum horft til þess að tónlistarskóli í sömu byggingu myndi glæða menningarhúsið lífi, miklir möguleikar væru á samnýtingu á rýmum og tónlistarskólinn fengi bestu mögulegu starfsaðstöðu. Í framhaldinu voru gerðar áætlanir varðandi stærð og kostnað húsnæðis tónlistarskólans. Þær gerðu ráð fyrir 1.200 m², auk 600 m² sem kæmu til með að samnýtast með starfsemi menningarhússins.

Skrifað var undir samning við hönnuði hússins að lokinni samkeppni í júní 2005 og var ákveðið að hanna tónlistarskólann samhliða hönnun menningarhússins. Heildarstærð hússins var áætluð um 4700 m².