Fara í efni

Úthlutunarreglur 2024-2025

 

Helstu markmið verkefnisins eru að :

a)  Auðvelda ungu listafólki og þeim sem standa utan stofnanna að nýta sér þá fyrirmyndar aðstöðu sem Hof og Samkomuhúsið bjóða upp á.

b) Stuðla að fjölbreytileika í listviðburðum í Hofi og Samkomuhúsinu.

c) Nýta þá möguleika sem Hof og Samkomuhúsið bjóða upp á fyrir fjölbreytta viðburði.

 • Samkvæmt samkomulagi um verkefnið er heimilt að greiða fulltrúum í úthlutunarnefnd þóknun fyrir fundarsetur. Skal þá miðað við reglur Akureyrarbæjar um greiðslur fyrir setu í minni vinnuhópum.

 • Auglýsa skal eftir styrkumsóknum að jafnaði eigi síðar en febrúar ár hvert og skal afgreiðslu umsókna lokið eigi síðar en um miðjan apríl sama ár. Markmiðið er að viðburðir sem hljóta styrk geti orðið sýnilegir í menningarframboði komandi starfsárs Menningarfélags Akureyrar. Tryggja skal að auglýsingar og umfjöllun um umsóknarferlið séu áberandi og skulu m.a. birtast á heimasíðum Akureyrarbæjar og Menningarfélags Akureyrar. 

 • Umsækjendur geta verið einstaklingar eða hópar sem hyggjast vera með listviðburð í Hofi eða Samkomuhúsinu.

 • Umsækjendur sækja um með rafrænum hætti í gegnum mak.is. Í umsókninni skal koma fram greinargóð lýsing á verkefninu og markmiðum þess,  ferilskrá helstu þátttakenda, óskatími til sýninga eða flutnings, ásamt sal.

 • Í texta  umsóknar skal þess getið um hvaða styrki aðra hefur sótt vegna verkefnis, eða ráðgert er að sækja um, á þeim tímapunkti sem umsóknin er gerð. Úthlutunarnefndin lítur það jákvæðum augum að verkefni hljóti einnig styrkveitingu annarstaðar frá.

 • Litið verður til eftirtalinna atriða við afgreiðslu umsókna:
  1. Að verkefnið henti og nýti möguleika Hofs.
  2. Að verkefnið hafi möguleika á að höfða til nýrra áheyrandahópa.
  3. Að umsókn verkefnisins sýni fram á að hér sé á ferð bæði metnaðarfullt og framkvæmanlegt verkefni.
  4. Að verkefnið ýti undir fjölbreytt listalíf í Hofi.
  5. Að verkefni frá listafólki sem hafa skýra tengingu við Akureyri og nágrenni njóta alla jafna forgangs.
 • Styrkur til verkefnis gengur til kostnaðar vegna afnota af salarkynnum, grunn tæknibúnaði, tækniþjónustu og af ljósakassa. Styrkþegi semur um tímasetningu við Menningarfélag Akureyrar. Gerður skal skriflegur samningur um styrkinn. Ágóði af viðburðinum að frádregnum kostnaði umfram styrkupphæð og miðasöluþóknun er greiddur styrkþega skv. gildandi samningi milli Menningarfélags Akureyrar og styrkþega. Styrkþegi skal skila inn stuttri greinargerð um verkefnið en greiðsla má ekki fara fram fyrr en eftir að henni hefur verið skilað. Sjóðurinn skal ekki hafa tekjur af neinu þeirra verkefna sem hljóta styrk og ber ekki fjárhagslega ábyrgð á verkefnum sem styrk hljóta.

 • Hámarksstyrkur til hvers verkefnis við hverja úthlutun er að andvirði leigu fyrir Hamraborg ásamt lágmarkstæknibúnaði skv. verðskrá Menningarfélags Akureyrar. Umrædd styrkupphæð er hámark, en ekki endilega viðmið við styrkúthlutanir.

 • Styrkþegi skal geta þess í kynningu sinni á verkefninu, þar með töldum í fréttatilkynningu, í viðtölum, á prentefni og á samfélagsmiðlum eins og mögulegt er, að verkefnið sé styrkt af sjóðnum, auk þess að hafa kennimerki sjóðsins sýnilegt þar sem það á við.

 • Við úthlutun og þegar tilkynnt er um úthlutanir, skal ávallt nafngreina þá sem að honum standa: Menningarfélag Akureyrar, Akureyrarbær og Menningarfélagið Hof. Úthlutanir skulu fara fram á opinberum vettvangi.

 • Úthlutunarnefnd áskilur sér rétt til að afturkalla styrkveitingu ef hún metur það sem svo að tvísýnt sé um framvindu verkefnisins, eða að ljóst þyki að ekki verði af viðburðinum.

 • Úthlutunarnefndin veitir ekki rökstuðning fyrir afgreiðslu umsókna.

 

Akureyri í mars 2022