Fara í efni

Útgáfutónleikar, Galdragáttin og Andri Snær

Í kvöld fagnar söngkonan Marína Ósk útgáfu sinnar fyrstu sólóplötu með útgáfutónleikum í Hömrum í Hofi. Marína Ósk er mörgum Akureyringum kunn, en hún hefur frá haustinu 2011 komið reglulega fram á tónleikum og viðburðum á Norðurlandi, stjórnaði m.a. Gospelkór Akureyrar um nokkurt skeið við góðan orðstýr og söng lagið „Ég sé Akureyri“ sem samið var í tilefni 150 ára afmæli Akureyrar.

Ásamt Marínu Ósk koma fram Mikael Máni Ásmundsson á rafgítar, Stefán Gunnarsson á rafbassa, Hallgrímur Jónas Ómarsson á kassagítar,  Valgarður Óli Ómarsson á trommur og bakraddirnar Helga Hrönn Óladóttir, Eik Haraldsdóttir og Anna Skagfjörð. Miðasala er enn í fullum gangi. Viðburðurinn hlaut styrk frá listsjóðnum VERÐANDI.

Fjölskyldusýningin Galdragáttin og þjóðsagan sem gleymdist er sýnd í Samkomuhúsinu laugardag og sunnudag. Báðar sýningar hefjast klukkan 13. Með sýningum helgarinnar eru aðeins fjórar sýningar eftir en ekki verður hægt að bæta við fleiri aukasýningum. Sýningin er fyrir sex ára og eldri og eru yngri áhorfendur á ábyrgð foreldra.

Á þriðjudaginn er komið að Andra Snæ með sýninguna Um tímann og vatnið. Á næstu 100 árum mun jörðin okkar fara í gegnum breytingar sem eru stærri en tungumál okkar og myndhverfingar geta höndlað. Þessar yfirvofandi ummyndanir sprengja í raun skynjun okkar svo við heyrum bara eitthvað hvítt suð. Andri Snær Magnason ætlar að hjálpa okkur að sjá gegnum suðið og skilja stærðirnar með því að blanda saman persónulegum sögum, vísindum, minningum og hugmyndum um framtíðina. Sérstakur gestur er tónlistarmaðurinn Högni Egilsson. Athugið að allir 25 ára og yngri fá miðann á 2900 kr. í miðasölunni í Hofi sem opin er virka daga kl. 13-18 og 2 tímum fyrir viðburði.

Um tímann og vatnið með Andra Snæ er gestasýning frá Borgarleikhúsinu. Miðasala er í fullum gangi. Ekki missa af þessari einstöku sýningu um mikilvægustu málefni okkar tíma. 

 

Til baka