Fara í efni

Þrennir tónleikar í Hofi í næstu viku

Það verður líf og fjör í Hofi í næstu viku þegar þrennir tónleikar fara fram í húsinu. Á mánudaginn leikur sellóleikarinn Geirþrúður Anna Guðmundsdóttir allar sex einleikssvítur Johanns Sebastians Bach. Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði.

Miðvikudaginn 16. júní er komið að Winter Lullabies and Summer Jazz með tónlistarkonunni Diana Sus. Diana er tónskáld og söngkona sem hefur útskrifast af deild Skapandi Tónlistar í Tónlistarskólanum á Akureyri. Hún hefur unnið við margvísleg verkefni. Haldið tónleika, unnið við upptökur á hljómplötu sinni í fjórum hlutum. "Winter Lullabies" hefur verið samstarf við Sigfús Jónsson úr Hljómbræður Stúdíó ehf og hlaut styrk frá Menningarsjóði Akureyrarbæjar.

Föstudagskvöldið 18. júní er loksins komið að tónleikum hins unga hæfileikaríka Birkis Blæs. Tónleikarnir  Birkir Blær í Black Box fara fram í svarta kassanum í Hamraborg. Birkir Blær mun syngja frumsamið efni af nýútgefinni plötu ásamt óútgefnu efni og vel völdum ábreiðum. Birkir er vanur að koma fram einn með græjurnar sínar, en í þetta sinn hefur hann með sér einvala lið hljóðfæraleikara. 

Tónleikar Diana Sus og Birkis Blæs eru hluti af Listviðburðaröð VERÐANDI í tilefni af 10+1 árs afmæli Menningarhússins Hofs.   

 

Til baka