Fara í efni

Fjölbreyttur marsmánuður framundan

Marsmánuður heilsar með nýjum sýningum af söngleiknum  Chicago sem hefur heldur betur slegið í gegn í Samkomuhúsinu. Nú þegar vorið nálgast fer sýningum fækkandi og þar sem salan hefur gengið vonum framar er mælst með því að áhugasamir tryggi sér miða áður en það verður of seint.

Leikfélag Menntaskólans á Akureyri frumsýnir söngleikinn  Footloose í Menningarhúsinu Hofi föstudagskvöldið 3. mars. Footloose er byggður á samnefndri kvikmynd með Kevin Bacon í aðalhlutverki. Söngleikurinn er fullur af skemmtilegum dönsum, æðislegri tónlist og boðskap sem hvetur ungmenni til þess að vera frjáls og að standa með sjálfum sér. Söngleikurinn verður einnig sýndur kl. 16 og 20 þann 5. mars og á sama tíma 12. mars.

Sunnudaginn 5. mars kemur Arctic Opera fram í Menningarhúsinu Hofi. Arctic Opera er hópur klassísk þjálfaðra óperusöngvara á Norðurlandi sem mun, undir stjórn Michaels Jóns Clarke, flytja margar af þekktustu perlum íslenskra laga.

Upphátt, upplestrarkeppni grunnskólanna á Akureyri verður haldin þriðjudaginn 7. mars í Hömrum, Hofi. Er þetta í 22. sinn sem þessi keppni er haldin og munu 14 þátttakendur í 7. bekk, úr sjö skólum taka þátt. Bæði nemendur og kennarar leggja mikla vinnu við að undirbúa sig fyrir hátíðina en upphafsdagur hennar hefst á degi íslenskra tungu, 16. nóvember ár hvert. Á þessu tímabili er lögð sérstök áhersla á upplestur, vandaðan framburð, túlkun og framkomu.

Þann 25. mars flytur Kammerkór Norðurlands bandaríska kórtónlist í Hofi á viðburðinum Sound of Silence. Flutt verða nokkur af glæsilegustu nýrri kórverkum en einnig er á efnisskránni þjóðlög, trúarleg lög og þekkt popplög í nýjum og metnaðarfullum útsetningum. Stjórnandi er Guðmundur Óli Gunnarsson en kórfélagar eru flestir tónlistarmenntaðir og/eða atvinnufólk í tónlist frá Norðurlandi. Tónleikarnir hefjst kl. 16.

Um kvöldið er komið að Abba tónleikasýningunni í Hofi. Söngkonur eru Hansa, Jóhanna Guðrún, Selma Björns, Stefanía Svavarsdóttir og Regína Ósk en með þeim er einvalalið íslenskra tónlistarmanna sem flytur lög þessarar goðsagnakenndu hljómsveitar.

Miðasala á alla viðburðina er á mak.is en við minnum líka á facebook síður Menningarfélagsins, Leikfélags Akureyrar, Menningarhússins Hofs og Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands þar sem nýjar fréttir um viðburði okkar og annarra viðburðahaldara í Hofi eru birtar á hverjum degi.

Til baka