Fara í efni

Líf og fjör í Hofi á aðventunni

Það verður heldur betur jólalegt um að litast í Menningarhúsinu Hofi allan desember. Í byrjun mánaðarins verður sett upp ný myndlistarsýning og svo taka hverjir jólatónleikarnir við af öðrum.

Myndlistarkonan Jóna Hlíf Halldórsdóttir opnar einkasýninguna  Vetrarlogn þann 4. desember og mun sýningin standa til 9. janúar.

Sama kvöld munu hinir stórskemmtilegu jólatónleikar Norðurljósanna fara fram í Hamraborg. Fyrri tónleikarnir eru klukkan 19 og þeir síðari klukkan 22. Söngvarar Norðurljósanna í ár eru þau Ragnhildur Gísladóttir, Mugison, Magni Ásgeirsson, Bríet, Óskar Pétursson og Pálmi Gunnarsson.

Þann 11. og 12. desember er komið að sjálfum Friðrik Ómari og hljómsveit Rigg viðburða að taka á móti prúðbúnum gestum í Hof. Jólatónleikarnir Heima um jólin hafa fest sig rækilega í sessi og verða hvorki fleiri né færri en fimm tónleikar þessa tvo daga. Gestasöngvarar með Friðriki Ómari eru Dísella Lárusdóttir, Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Katrín Halldóra Sigurðardóttir, Jóhanna Guðrún og Jógvan.

Þann 18. desember skiptum við svo um gír þegar sjálfur Ari Eldjárn mætir með  Áramótaskopið sitt í Hof. Ari er fyrir löngu orðinn einn allra vinsælasti uppistandari þjóðarinnar og hefur einnig getið sér góðs orðs víða erlendis.

Þriðjudaginn 21. desember mætir enginn annar en Bubbi Morthens með  Þorláksmessutónleika sína. Þessi tónleikaröð er ein sú allra langlífasta tónleikahefð í aðdraganda jóla og eru ófáir sem geta ekki hugsað sér aðventun án þeirra.

Það verður því líf og fjör alla aðventuna í Hofi og um að gera að nýta sér tækifærið og fá hátíðleikann beint í æði í fallegasta húsi bæjarins.

ATHUGIÐ

Gestir á stærri viðburðum þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi sem ekki má vera eldra en 48 klst. Nauðsynlegt er að bóka tíma í hraðpróf. Heimapróf eru ekki tekin gild.
Hraðprófin eru frí.

 

Einfaldast er að bóka hraðpróf á www.heilsuvera.is en einnig er hægt að gera það hér í gegn:

Bóka hraðpróf - Hvannavöllum

Bóka hraðpróf - HSN Strandgata

 

Hvannavellir 10 (gamla Hjálpræðishershúsið)
Frá og með fimmtudeginum 18. nóvember færast hraðprófin sem fóru fram við Borgir að Hvannavöllum 10 (gamla Hjálpræðishershúsið). Þar verður opið til kl 18 á fimmtudögum, kl 20 á föstudögum, 10 - 16 á laugardögum og 10 - 14 á sunnudögum til jóla.

Strandgata 31
Opnunartími fyrir hraðpróf alla daga frá kl: 11:15 til 12:30 nema föstudaga og laugardaga til kl. 14.00.

 

Til baka