Fara í efni

Gjörningar, Njála, Ella Fitzgerald, strengjamót og Nýdönsk

Nýdönsk heldur tvenna tónleika í Hofi á laugardagskvöldið.
Nýdönsk heldur tvenna tónleika í Hofi á laugardagskvöldið.

Það er stór helgi framundan hjá Menningarfélagi Akureyrar. Strax á morgun, fimmtudag, hefst A! Gjörningahátíð með tveimur viðburðum í Hofi. Viðburður Hörpu Arnardóttur, Það komast milljón jarðir fyrir inni í sólinni, hefst klukkan 17 en viðburður Aðalheiðar S. Eysteinsdóttur, Sinfónía/Symphony, hefst kl. 20. Frítt er á alla viðburði gjörningahátíðarinnar. 

Hljómsveitin Hundur í óskilum sýnir þrjár sýningar af Njálu á hundavaði í Samkomuhúsinu um helgina, fimmtudag, föstudag og laugardag. Nú fer hver að verða síðastur til að tryggja sér miða á þessa óborganlegu skemmtun en sýningum lýkur í október. 

Á föstudagskvöldinu verða tónleikar í Hofi til heiðurs Ellu Fitzgerald. Fram koma söngkonurnar Rebekka Blöndal, Ragga Gröndal, Kristjana Stefáns, Guðlaug Dröfn Ólafsdóttir og Sigrún Erla Grétarsdóttir. Sérstakur gestur og kynnir verður Þórhildur Örvarsdóttir tónlistarkona. Tónleikarnir verða í Hömrum og hefjast klukkan 20. 

Á laugardagskvöldinu er komið að því sem margir hafa beðið eftir – stórtónleikar Nýdanskrar í Hofi. Nýdönsk verður með tvenna tónleika í Hamraborg, þá fyrri klukkan 18 og síðari kl. 21. Enn eru nokkrir miðar eftir en áhugasömum er bent á að hafa skjótar hendur því miðarnir munu renna út þessa síðustu daga. 

Á sunnudeginum verður  strengjamót í Hofi. Mótinu lýkur með hátíðartónleikum í Hamraborg kl. 14 og er aðgangur ókeypis.

Sem sagt stór og fjölbreytt helgi framundan. Endilega kíktu á dagskrána á mak.is

 

Til baka