Fyrsti samlestur á Litlu Hryllingsbúðinni!
Það var gleði og gaman þegar fyrsti samlestur af Litlu Hryllingsbúðinni fór fram í Samkomuhúsinu á mánudaginn! Verkið verður frumsýnt þann 11.október.
Söngleikurinn Litla Hryllingsbúðin eftir Howard Asman og Alan Menken hefur farið sigurför um heiminn frá því að hann var frumsýndur á Broadway árið 1982 enda hefur hann allt sem prýðir bestu söngleiki; krassandi sögu, heillandi persónur og frábæra tónlist. Verkið er í þýðingu Magnúsar Þórs Jónssonar og Gísla Rúnars Jónssonar.
Leikstjóri er Bergur Þór Ingólfsson. Leikhópurinn er frábær en í honum eru Kristinn Óli Haraldsdóttir, Birta Sólveig Söring Þórisdóttir, Arnþór Þórssteinsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Jónína Björt Gunnarsdóttir, Katrín Mist Haraldsdóttir, Urður Bergsdóttir, Þórey Birgisdóttir, Jenný Lára Arnórsdóttir og Bergur Þór Ingólfsson.
Tónlistarstjóri er Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, danshöfundur Unnur Elísabet Gunnarsdóttir, leikmynd Sigríður Sunna Reynisdóttir, búningar Björg Marta Gunnarsdóttir, ljósahönnun Ólafur Ágúst Stefánsson, hljóðhönnun Gunnar Sigurbjörnsson, hár og förðun Harpa Birgisdóttir og sýningarstjórn Þórunn Geirsdóttir og Unnur Anna Árnadóttir.
Bergur Þór leikstjóri býst við skemmtilegum komandi vikum. "Næstu daga liggjum við yfir handritinu og lögunum, svo verður bara brunað út á gólf og farið að æfa senur. Eftir að hafa farið í gegnum þennan fyrsta samlestur, er ég algjörlega viss um að við eigum eftir að skemmta okkur, sem mun svo leiða til þess að áhorfendur munu skemmta sér enn betur. Framundan er dans, söngur og átök við mannætuplöntu. Er hægt að óska sér einhvers betra?"
Birta Sólveig, sem fer með hlutverk Auðar er spennt að byrja. "Litla Hryllingsbúðin er söngleikur sem er allt á sama tíma - fallegur, seiðandi, hryllilegur og fyndinn! Allir verða að sjá hann! Ég er ótrúlega spennt að vinna með öllu þessu frábæra fólki á Akureyri og takast á við hana Auði mína."
Kristinn Óli, sem fór svo eftirminnilega með hluta Tóta Tannálfs í uppsetningu LA á Benedikti Búálfi árið 2021 er glaður að vera kominn aftur norður. "Mér finnst æðislegt, alveg frábært og unaðslegt og öll góðu orðin sem ég kann að vera kominn aftur."
Sýningar eru farnar að seljast upp og því um að gera að næla sér í miða sem fyrst.