Jón Nordal í 100 ár, Heiðurstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands 8. mars
Sinfóníuhljómsveit Norðurlands heiðrar eitt áhrifamesta tónskáld Íslands, Jón Nordal, með sérstökum minningartónleikum laugardaginn 8. mars.
Þann 6. mars hefði Jón orðið 100 ára ef hann hefði lifað og eru tónleikarnir því einnig tilefni til að fagna 100 ára fæðingarafmæli listamannsins.
Á efnisskránni eru tvö af áhrifamestu verkum hans: Óttusöngvar að vori (1993), fyrir sópran, selló, slagverk og kór og Konsert fyrir selló (1982), stórbrotið verk þar sem hlý rödd sellósins mætir krafti sinfóníuhljómsveitarinnar.
Einnig verður frumflutt verk eftir Daníel Þorsteinsson á tónleikunum en Daníel var útnefndur bæjarlistamaður á Akureyri árið 2000.
Heiðurstónleikar Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands þann 8. mars eru því ekki aðeins tónlistarviðburður, heldur minning um mann sem litaði tónlistarlífið á Íslandi með verkum sínum. Jón Nordal skildi eftir sig arfleifð sem heldur áfram að hljóma og hafa áhrif á nýja kynslóð tónskálda sem sækja innblástur í þá næmni sem einkenna verk hans.
Bjarni Frímann Bjarnason mun stjórna Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á tónleikunum og einsöngur verður í höndum Herdísar Önnu Jónasdóttur, sópran og Hönnu Dóru Sturludóttur mezzo-sópran. Kórarnir Hljómeyki og Kór Akureyrarkirkju munu einnig fylla salarrými Hofs með söng sínum. Einleikari á selló er Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir.