Fara í efni

Blanda af hátíðleika og skemmtun á aðventunni

Framundan er desember, sjálfur jólamánuðurinn, og aðventan heilsar okkur með hátíðlegum en afar fjölbreyttum viðburðum í Menningarhúsinu Hofi og Samkomuhúsinu.

Við tökum smá forskot á aðventu-sæluna laugardaginn 2. desember með jólatónleikunum Jólaljós og lopasokkar sem eru kósý og hátíðlegir jólatónleikar með öllum okkar uppáhalds jólalögum í bland við minna þekkt jólalög.

Hátíðardanssýning Steps Dancecenter fer fram í Hofi sunnudaginn 3. desember þar sem hið klassíska jólaævintýri um Skrögg verður sett upp í skemmtilegan dansbúning.

Helgina eftir, 8-10. desember, er komið að sjálfum Friðriki Ómari með sína sexu. Á föstudagskvöldinu eru einir tónleikar, á laugardeginum eru þrír og á sunnudeginum tvennir. Friðrik Ómar hefur gefið út að um síðustu tónleika Heima um jólin sé að ræða svo nú er síðasti séns að upplifa þessa dásemd.

Sömu helgi verður jólasýningin Ævintýri á aðventunni sýnd í Samkomuhúsinu. Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Verkið er stutt og laggott, eða um 30 mín að lengd, fyndið og efniviður sóttur í hinn undarlega íslenska jólasöguarf.

Stórsöngvarinn Valdimar Guðmundsson heldur jólatónleikana sína í Hofi laugardagskvöldið 16. desember. Í þetta skiptið býður hann einnig velkominn sérstakan hátíðargest, hinn goðsagnakennda Pálma Gunnarsson.

Þorláksmessutónleikaröð Bubba Morthens er ein allra langlífasta tónleikahefð í aðdraganda jóla og eru ófáir sem geta ekki hugsað sér aðventuna án þeirra. Tónleikar Bubba fara fram í Hofi 21. desember.

Grínistinn Ari Eldjárn bindur svo endahnútinn á aðventuna í Hofi með Áramótaskopinu sínu. Fyrir hlé verður árið í forgrunni og eftir hlé verður víða komið við og allt milli himins og jarðar rætt. Hver sýning er einstök og mun áherslan vera lögð á að kveðja árið með eftirminnilegum hætti.

Aðventan hjá Menningarfélagi Akureyrar er því einstaklega skemmtileg með hæfilegri blöndu af hátíðleika og skemmtun svo allir ættu að finna sér eitthvað við sitt hæfi.

Miðasala á alla viðburðina eru á mak.is.

Að lokum minnum við á  gjafabréfin á viðburðina okkar sem eru fullkomin jólagjöf handa þeim sem allt eiga! 

Til baka