Fara í efni
Dags Tími
13 .mar '21 20:00

Uppselt er á báða tónleikana um helgina!  Hafðu samband við miðasöluna í síma 450 1000 ef þú vilt komast á biðlista.

Víkingur Heiðar er meðal eftirsóttustu einleikara sinnar kynslóðar. Hann hlaut nýverið hin virtu þýsku tónlistarverðlaun; Opus Klassik sem píanóleikari ársins, annað árið í röð. Nú var hann verðlaunaður fyrir upptöku sína á verkum frönsku tónskáldanna Debussy og Rameau sem hefur hvarvetna hlotið einróma lof. Víkingur mun flytja efnisskrá nýju einleiksplötu sinnar sem kom út hjá Deutsche Grammophon fyrr á þessu ári. Á fyrri hluta tónleikanna vefur hann saman hljómborðsverkum Claude Debussy og Jean-Philippe Rameau og flytur að lokum eitt helsta meistaraverk rússneskra tónbókmennta, Myndir á sýningu eftir Modest Músorgskíj, í mikilfenglegri umritun eftir Vladimir Horowitz. Víkingur Heiðar flytur hér sömu efnisskrá og á opnunartónleikum Listahátíðar í Reykjavík 2020 í Hörpu.

Á komandi tónleikaárum mun Víkingur gegna stöðu staðarlistamanns við nokkur helstu tónlistarhús heims. Í fyrra var hann staðarlistamaður Konzerthaus í Berlín og á þessu starfsári gegnir hann sömu stöðu hjá Southbank Centre í London. Meðal hljómsveita sem hann mun koma fram með á næstunni má nefna Fílharmóníusveitirnar í Los Angeles og New York, Santa Cecilia í Róm, Sinfóníuhljómsveitina í San Francisco og Cleveland-hljómsveitina. Þá eru einnig fyrirhugaðir debut-tónleikar hans í Carnegie Hall í New York.

Þessir tónleikar eru haldnir í samstarfi Menningarhússins Hofs sem fagnar 10 ára afmæli og Listahátíðar í Reykjavík sem fagnar 50 ára afmæli.

Athugið; hlé er á tónleikunum. Farið verður eftir ítrustu sóttvarnarreglum. Muna grímuskyldu.