Fara í efni
Dags Tími
06 .sep '20 17:00
Verð: 5.500 kr.

Kristinn Sigmundsson stórsöngvari og Anna Guðný Guðmundsdóttir píanóleikari halda sínu striki og halda tónleika sína í Hofi sunnudaginn 6. september klukkan 17. Tónleikarnir fara fram í Hamraborg en ekki í Hömrum. Fjöldi miða takmarkast við 100 manns í salnum, tveir metrar verða á milli óskyldra gesta og farið verður eftir gildandi sóttvarnarreglum. Sætin eru ónúmeruð á þessa tónleika og starfsfólk hússins mun vísa fólki til sætis til að halda 2 metra reglunni. 

Á tónleikunum flytja þau verkið Winterreise (Vetrarferðin) eftir Franz Schubert. 

Vetrarferðina eftir Franz Schubert er 24 laga flokkur við ljóð eftir Wilhelm Müller er eitt mesta stórvirki ljóðasöngbókmenntanna. Vetrarferðin er með því síðasta sem Schubert samdi. Hún er uppfull af sterkum tilfinningum og lætur engan ósnortinn.

Kristinn hefur oft sungið þennan flokk, bæði hérlendis og erlendis. Hann flutti Vetrarferðina í fyrsta sinn á tónleikum 14. mars árið 1987. Jón Ásgeirsson skrifaði um tónleikana í Morgunblaðið og sagði meðal annars: „Það er ekki allra að takast á við Vetrarferðina og það var því sérlega ánægjulegt hversu Kristni Sigmundssyni og Jónasi Ingimundarsyni tókst til,  því ekki er að öðrum vikið þó staðhæft sé, að þessir tónleikar Tónlistarfélagsins séu einhverjir vönduðustu söngtónleikar sem íslenskir listamenn hafa boðið upp á.“

Schubert taldi Vetrarferðina vera hátind sköpunar sinnar.

Þessa tónleika ætti enginn unnandi ljóðatónlistar og söngs að láta fram hjá sér fara.

Í miðasölunni í Hofi er veittur 15% afsláttur fyrir eldri borgara og öryrkja á þessa tónleika. 

Tónleikarnir eru 80 mín að lengd og ekki verður tekið hlé. 

 

Aðeins um þau Kristinn og Önnu Guðnýju:  

Kristinn Sigmundsson lagði stund á söngnám hjá Guðmundi Jónssyni, Helene Karusso og John Bullock. Hann hefur komið fram í óperu- og tónleikahúsum víðsvegar um heim í u.þ.b. þrjá áratugi, svo sem New York, San Francisco, Los Angeles, Milano, London, Berlín, Amsterdam, Brüssel, Tokyo og Beijing.

Kristinn hefur sungið yfir 100 óperuhlutverk. Meðal þeirra má nefna Gurnemanz(Parsifal), König Heinrich(Lohengrin), Daland(Hollendingurinn Fljúgandi), Landgraf(Tannhäuser), Marke Konung(Tristan og ísold), Rocco(Fidelio), Baron Ochs (Rósariddarinn), LaRoche (Capriccio), Mephistopheles(Faust) og Osmin (Brottnámið úr kvennabúrinu)

Hann hefur haldið marga ljóðatónleika á Íslandi, aðallega með Jónasi Ingimundasyni. Þeir hljóðrituðu Svanasöng og Vetrarferð Schuberts, auk nokkurra diska með íslenskum og erlendum sönglögum. Hann hefur auk þess tekið upp Vetrarferðina með Víkingi Ólafssyni.

Af öðrum upptökum má nefna Don Giovanni og Töfraflautuna undir stjórn Arnolds Östman(Decca),Jóhannesar- og Mattheusarpassíu Bachs með Franz Bruggen(Phillips) Szenen aus Goethes Faust eftir Schumann undir stjórn Philippe Heereweghe(Harmonia Mundi), Fidelio undir stjórn Sir Colin Davis(London Symphony Orchestra), Die Gezeichneten eftir Franz Schreker, stj. Lothar Zagrosek(Deutsche Grammophon) og síðast en ekki síst, The Ghosts of Versailles eftir John Corigliano undir stjórn James Conlon(Los Angeles Óperan). Sú upptaka vann til tvennra Grammy-verðlauna.

Meðal viðurkenninga sem Kristinn hefur hlotið eru:

1983: Philadelphia Opera prize og Opernwelt-verðlaunin í Belvedere óperusöngvarakeppninni í Vín
1991: Stämgaffeln - Det klassiska svenska fonogrampriset
1995: Íslensku tónlistarverðlaunin
1995: Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu
2005: Bæjarlistamaður Kópavogs
2010: Íslensku tónlistarverðlaunin
2011: Íslensku tónlistarverðlaunin
2011: Útflutningsverðlaun Forseta Íslands og Íslandsstofu
2015: Grímuverðlaun - Söngvari ársins
2016: Íslensku tónlistarverðlaunin - Heiðursverðlaun.
2017: Grammy awards

Anna Guðný Guðmundsdóttir brautskráðist frá Tónlistarskólanum í Reykjavík þar sem kennarar hennar voru Hermína S. Kristjánsson, Jón Nordal og Margrét Eiríksdóttir, en þangað kom hún úr Barnamúsíkskólanum þar sem Stefán Edelstein var kennari hennar. Hún hélt síðan til náms við Guildhall School of Music í Lundúnum og lauk þaðan Post Graduate Diploma. Hún hefur síðan starfað á Íslandi við margvísleg störf píanistans, í kammertónlist, meðleik og sem einleikari.

Hún kemur reglulega fram á Listahátíð í Reykjavík og hefur m.a. leikið á tónlistarhátíðunum Reykjavík Midsummer Music og Reykholtshátíð. Hún er píanóleikari Kammersveitar Reykjavíkur, hefur ferðast víða með henni og leikið inn á geisladiska, en alls hefur hún leikið inn á um 30 diska með ýmsum listamönnum. Anna Guðný hefur auk þess leikið með Karlakór Reykjavíkur á vortónleikum þeirra í yfir 20 ár og leikur með hljómsveitinni Salon Islandus.

Anna Guðný starfaði við tónlistardeild Listaháskóla Íslands frá stofnun hennar 2001 til ársins 2005 þegar hún var fastráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Í dag starfar hún einnig sem píanóleikari við Menntaskóla í tónlist. Anna hefur þrisvar sinnum verið tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hlaut þau árið 2008 sem flytjandi ársins.