Fara í efni
Dags Tími
01 .jún '18 20:00

Föstudagskvöldið 1. júní kl. 20:00 í Hömrum í Hofi

Þarna koma fram finnsku tónlistarmennirnir Anna Fält, Eeva- Kaisa Kohonen og Tríó Matti Kallio, ásamt dúettinum Funa, sem er að hálfu íslenskur og hálfu enskur, félögum úr Kvæðamannafélaginu Rímu og norska danshópnum Strilaringen og harðangursfiðluleikurum. Tónleikunum lýkur með því að Strilaringen og fiðlarar þeirra kenna tónleikagestum norska dansa og leiða svo almennan dans.

Anna Fålt frá Finnlandi opnar fyrir áheyrendum heillandi og margslunginn hljóðheim sænskra og finnskra þjóðlaga með röddinni einni saman! Anna er einstaklega fjölhæfur söngvari, lagahöfundur og listamaður sem elskar norræna þjóðlagatónlist.

Eeva- Kaisa Kohonen er rísandi stjarna í hinni fornu finnsku þjóðlagatónlist. Hún spilar á kantele, hefðbundið strengjahljóðfæri sem finnst í Finnlandi og í löndum Austur-Eystrasaltsríkjanna.

Tríó Matti Kallio - Matti Kallio spilar á díatóníska takkaharmóniku, fimmraða krómatíska hnappaharmoniku, ýmsar flautur og líka á gítar. Hann er einn af fjölhæfustu finnsku tónlistarmönnum sinnar kynslóðar.

Petri Hakala spilar á gítar og mandolín. Hann hefur verið virkur í finnska og alþjóðlega tónlistargeiranum síðan í kringum 1980.

Hannu Rantanen frá Helsinki er fjölhæfur kontrabassa spilari með fjölbreyttan áhuga á tónlist, allt frá jass og alþjóðlegri tónlist til leikhústónlistar og fleira.

Funi - Bára Grímsdóttir og Chris Foster hófu samstarf sitt árið 2001. Síðan hafa þau keppst við að blása lífi í íslenska þjóðlagatónlist sem hefur leynst í gömlum upptökum og lítt þekktum bókum og handritum, auk þess sem þau hafa bætt við nýjum lögum í þjóðlegum stíl.

Kvæðamannafélagið Ríma leitar í allar tegundir þjóðtónlistar okkar íslendinga - þjóðlög, kvæðalög, fimmundasöng og tvísöngva. Þau vilja ná tökum á stíl og raddbeitingu gömlu kvæðamannanna og jafnframt að hver og einn finni sína kvæðamannsrödd.

Strilaringen danshópurinn var stofnaður árið 1976 í Norður-Hörðalandi, sem er landsvæðið norður af Bergen, í vesturhluta Noregs. Tilgangurinn með stofnun hópsins var að halda lífi í norskum þjóðdönsum, tónlistar- og sönghefðum.

Aðgangseyrir krónur 2.800*

* 20% afsláttur er veittur fyrir eldri borgara, nemendur, atvinnuleitendur og öryrkja. Afsláttarmiða er einungis hægt að kaupa í miðasölunni í Hofi gegn framvísun viðeigandi skilríkja.

 

Aðrir viðburðir á Vöku:

Kaffitónleikar á Bláu könnunni
Námskeið í þjóðdansi og kórsöng í Hofi
Hádegishugvekjur í Hofi
Samspilsstundir á Götubarnum

Sjá dagskrá Vöku á www.vakafolk.is

 

Þjóðlistahátíðin Vaka er styrkt af Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra, Tónlistarsjóði, Akureyrarstofu, Norrænu menningargáttinni, Norræna húsinu, Finnska sendiráðinu, Menningarfélagi Akureyrar og Bílaleigu Akureyrar/Höldur.