Fara í efni
Dags Tími
30 .maí '21 14:00

Söngkonurnar Bríet og Eik Haraldsdóttir munu stíga á svið Hamraborgar í Hofi á Sumartónum Ungmennaráðs Akureyrar og Menningarhússins Hofs í tilefni af Barnamenningarhátíðinni á Akureyri.

Eik slær taktinn inní sumarið ásamt Agli Andrasyni meðleikara sínum. Þau munu hita tónleikagesti Hofs upp fyrir Bríeti, sem mun ásamt Rubin Pollock gítarleikara spila sín uppáhalds lög í bland við eigið efni.

Bríet skaust upp á stjörnuhimininn snemma árs 2018 með laginu In Too Deep og vakti strax mikinn áhuga bæði hérlendis og erlendis. Síðan þá hefur hver smellurinn á fætur öðrum komið frá þessari framtíðarpoppstjörnu. Tónlist hefur alltaf verið hluti af lífi Bríetar en hún fór að spila á gítar 12 ára. Þegar hún var 15 ára gömul var hún farin að syngja „off venue“ á Iceland Airwaves og hefur í raun ekki stoppað síðan. Bríet segir að það sé fólk hafi alltaf mikil áhrif á hana sem tónlistarkonu.

Eik er 18 ára Akureyringur sem hefur sungið opinberlega frá 10 ára aldri. Hún er að klára framhaldspróf í rhytmískum söng og jafnframt stúdentspróf af tónlistarbraut frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún var jólastjarna Björgvins árið 2013 og hefur meðal annars tekið þátt í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Vorið vaknar og Pílu pínu. Eik gaf út sína fyrstu plötu í janúar ásamt vini sínum.

Tónleikarnir Sumartónar setja punktinn yfir I-ið á Barnamenningarhátíðinni á Akureyri í ár.

Frítt er inn á tónleikana en allir gestir þurfa að tryggja sér miða á mak.is eða í miðasölu í Hofi. Athugið að einungis takmarkaður miðafjöldi er í boði vegna samkomutakmarkana.

 

Tónleikarnir hefjast kl. 14 og eru í klukkustund.

 

Farið verður eftir gildandi sóttvarnarreglum og við minnum á að grímuskylda er á viðburðinum.

 

Tónleikarnir eru styrktir af Akureyrarbæ.