Fara í efni

Vilt þú sjá söguna þína lifna við?

Leikfélag Akureyrar og KrakkaRÚV skora á krakka á aldrinum 6-12 ára að skrifa sögur. Sögurnar mega vera smásögur, stuttmyndahandrit, leikrit eða lag og texti. Menningarfélag Akureyrar er einn af mörgum samstarfsaðilum Sögu-verkefnisins, og það leikrit sem verður fyrir valinu frá Norðurlandi og Austurlandi, verður sett upp hjá Leikfélagi Akureyrar. Vinningssögurnar verða verðlaunaðar á Sögum – Verðlaunahátíð barnanna, þann 6. júní 2020.

Til að leiðbeina krökkum að skrifa sögu sem getur endað á leiksviði, ætlar Leikfélag Akureyrar í samstarfi við Amtsbókasafnið á Akureyri að halda Leikritunarsmiðju, laugardaginn 16. nóvember kl. 13-15 á Amtsbókasafninu. Leiðbeinandi verður Vilhjálmur B. Bragason leikskáld. Öll börn á aldrinum 6-12 ára eru velkomin og er þátttaka ókeypis. Skráning og nánari upplýsingar má finna á vefsíðu Amtsbókasafnsins.

Þetta er í þriðja sinn sem RÚV stendur fyrir Sögu-samkeppni. Markmið verkefnisins er að auka læsi og áhuga á íslenskum barnabókum og sögum og í leiðinni upphefja barnamenningu á Íslandi og sýna börnum að hverju hugmyndir þeirra geta orðið. Hægt er að senda inn sögur ein/n eða fleiri saman og er skilafrestur til 31. desember 2019.

Þær sögur sem verða valdar út enda ýmist í rafbók, í útvarpsleikhúsinu, sem stuttmynd eða á leiksviði. Vinningssaga síðasta árs frá Norðurlandi var sagan „Frúin í Hamborg“, skrifuð af Þórarni Þóroddssyni (11 ára) og Önnu Kristínu Þóroddsdóttur (9 ára). Sagan verður sett á svið af Leikfélagi Akureyrar á Barnamenningarhátíð á Akureyri í apríl 2020.

Til baka