Fara í efni

VÆB bræður og Maggi Eiríks um helgina

Þann 25. ágúst varð einn ástsælasti laga og textahöfundur íslands áttræður og afþví tilefni mun fjöldi frábærra listamanna heiðra hann og hans verk í Hofi þann 14. september. Magnús Eiríksson hefur talað til þjóðarinnar í gegnum lög sín og texta í hartnær 60 ár og líklegt að nánast hver einasti syngjandi Íslendingur geti raulað með hans vinsælustu lögum. Hvort sem það er Magga í bragga, Draumaprinsinn, Húsið við Hudson bay, ómissandi fólk eða eitthvert annað þeirra fjöldamörgu laga sem hann hefur samið fyrir Brunaliðið, Mannakorn, sjálfan sig og fjölda annarra listamanna.

Tónleikarnir hefjast kl. 16 og munu Ellen Kristjáns, KK, Múgison, Pálmi Gunnars og Ragga Gísla flytja og túlka lög hans og texta á þessum stórviðburði.

Daginn áður, eða laugardaginn 13. september verður annað tempó á sviði Hofs þegar VÆB bræður verða með fjölskyldutónleika þar sem þeir munu flytja júróvisjón slagarana sína ásamt öðrum ofurhressandi lögum á sinn einstaka hátt. Búast má við háu orkustigi og frábæru fjöri.

Það er því eitthvað fyrir allan aldur í Hofi um helgina, hægt er að nálgast miða á viðburðina á Menningarfelag.is

Til baka