Fara í efni

Upprennandi listamenn sýndu afrakstur annarinnar

Myndina tók Sindri Swan
Myndina tók Sindri Swan

Undafarna daga hefur Hof iðað af eftirvæntingu og leikgleði er ríflega 100 leiklistarnemar Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar stigu á svið og sýndu afrakstur annarinnar. Kennt var á fjórum aldursstigum í samtals níu hópum auk þess sem LLA sá um leiklist í samvali grunnskólanna sem kennt var í Brekkuskóla.

Það var kraftaverki líkast að sjá hvernig kennarar, nemendur og tæknimenn fóru að því að færa sig úr björtum æfingasal DSA yfir á stóra sviðið í Hofi með ljósum, hljóði og tilheyrandi leikhústöfrum á örskotsstundu eins og ekkert væri! Sturlaður morðingi, djákni, Gilitrutt, karamelluræningjar, blind amma, ofurhetja, Fóa Feykirófa ásamt fleirum gengu laus um sviðið. Ekki þarf að hafa áhyggjur af framtíðinni því hún er sko sannarlega björt með þessum upprennandi listamönnum.

Skólastjóri og kennarar LLA þakka nemendum og forráðamönnum kærlega fyrir veturinn og eru strax farin að hlakka til haustsins.

Til baka