Fara í efni

Tvær tilnefningar til verðlauna

Menningarfélag Akureyrar er afskaplega stolt að segja frá því að tvær uppsetningar Leikfélags Akureyrar hafa verið tilnefndar til verðlauna sem leiksýning ársins 2017 á Sögum – verðlaunahátíð barnanna.

Annars vegar er það Núnó og Júnía, en þessi töfrandi fjölskyldusýning fékk eindæma góðar viðtökur og hlaut m.a. lof fyrir að taka á áleitnum spurningum sem leita á ungmenni og börn í flóknum nútímanum – og framtíðinni. Það voru þær Sigrún Huld Skúladóttir og Sara Martí Guðmundsdóttir sem skrifuðu verkið fyrir Leikfélag Akureyrar, auk þess sem Sara Martí leikstýrði uppsetningunni, sem var 322. sviðsetning leikfélagsins.

Hins vegar er það sýningin Stúfur, sem gaf þessum ástsæla jólasveini tækifæri til að kynnast leikhúsinu og skemmta börnum með söng, dansi og sögum af sjálfum sér og samferðafólki sínu. Svo vel gekk sýningin að Stúfur snéri aftur í Samkomuhúsið fyrir síðustu jól með sýninguna Stúfur snýr aftur.

Verðlaunahátíðin fer fram 22. apríl og geta öll börn á aldrinum 6-12 ára tekið þátt í að velja verðlaunahafa með því að kjósa á vef KrakkaRÚV.

Til baka