Fara í efni

Todmobile, Jón Gnarr og Bach um helgina

Það verður mikið um dýrðir annað kvöld í Menningarhúsinu Hofi þegar hljómsveitin Todmobile verður með tónleika sína í Hamraborg. Upprunalega þríeykið sem stofnaði Todmobile árið 1988, þau Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson gítarleikari, Andrea Gylfadóttir söngkona og Eyþór Arnalds söngvari og sellóleikari koma saman á ný, auk þess sem núverandi meðlimir láta sig að sjálfsögðu ekki vanta. Þegar þetta er skrifað er handfylli eftir að miðum svo áhugasömum er bent á að hafa mjög snör handtök til að tryggja sér miða

Á sama tíma í Samkomuhúsinu verður annarskonar fjör þar sem sjálfur Jón Gnarr verður með Kvöldvöku sína. Sýningin gekk fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu veturinn 2019 en engin Kvöldvaka með Jóni er nákvæmlega eins. Hvert kvöld er einstök upplifun þar sem sagnahefðin og frásagnargleðin mun ráða ríkjum. Sumar sögurnar hafa einhverjir heyrt hann segja í útvarpinu en flestar hafa aldrei heyrst áður. Miðasala er hér.

Á sunnudeginum mun Tónlistarfélag Akureyrar standa fyrir viðburðinum Sif, Hjálmar og Bach í Hömrum í Hofi. Flutt verða tvö verk fyrir einleiksfiðlu. Annars vegar Sónata fyrir einleiksfiðlu no 1 í g-moll eftir Johann Sebastian Bach sem samin var árið 1720 og hins vegar nýtt verk eftir Hjálmar H. Ragnarsson Partíta fyrir einleiksfiðlu samin árið 2020.

 

Gestir á stærri viðburðum þurfa að framvísa neikvæðu hraðprófi sem ekki má vera eldra en 48 klst. Nauðsynlegt er að bóka tíma í hraðpróf. Heimapróf eru ekki tekin gild.
 
Hér er skráning í hraðpróf vegna viðburðar ef þú velur að fara í Strandgötu. Hér er skráning ef þú velur að fara í hraðpróf í Borgum við Norðurslóð. Skráðu þig á síðunni og fáðu strikamerki/kóða og tímasetningu. Niðurstöðurnar færðu svo innan við klukkutíma í símann eða tölvupóstinn. Ef þú greinist ekki með covid færðu skilaboð þess efnis sem þú sýnir við komuna í Hof. Vinsamlega hafðu gögnin tilbúin þegar þú mætir á viðburðinn. Það flýtir fyrir ef þú kemur með útprentaða niðurstöðu. Hraðprófin eru frí.

 

Bóka hraðpróf - Hvannavöllum

Bóka hraðpróf - HSN Strandgata

 

Hvannavellir 10 (gamla Hjálpræðishershúsið)
Frá og með fimmtudeginum 18. nóvember færast hraðprófin sem fóru fram við Borgir að Hvannavöllum 10 (gamla Hjálpræðishershúsið). Þar verður opið til kl 18 á fimmtudögum, kl 20 á föstudögum, 10 - 16 á laugardögum og 10 - 14 á sunnudögum til jóla.
 
Strandgata 31
Opnunartími fyrir hraðpróf mánudagar, þriðjudagar, miðvikudagar og fimmtudagar 11.00 til 14.00. Föstudagar 11:15 – 16:00. Laugardagar 11:15 – 14:00

 

 

 

 

Til baka