Fara í efni

Stúfur, Norðurljósin og danssýning

Mynd frá Jóladanssýningu Dansskólans STEPS.
Mynd frá Jóladanssýningu Dansskólans STEPS.

Helgin var heldur betur viðburðarrík hjá Menningarfélagi Akureyrar. Ekki nóg með að Stúfur hafi haldið tvær fjörugar sýningar í Samkomuhúsinu, og sé þar með rokinn af stað í önnur verkefni aðventunnar, heldur var einnig mikið líf og fjör í Menningarhúsinu Hofi.

Á föstudaginn mættu fyrstu bekkingar úr grunnskólum Akureyrar í Hof til að syngja jólalög með stjörnunum í Norðurljósunum. Jólatónarnir heyrðust langt inn í Eyjafjörð og líklega alla leið til Grímseyjar svo mikið var fjörið. Norðurljósastjörnurnar létu ekki þar við sitja heldur héldu tvenna tónleika á föstudagskvöldinu og enn aðra á laugardagskvöldinu sem leiddi til þess að stór hluti Norðlendinga komst í alvöru jólaskap enda tónleikarnir sérstaklega vandaðir og vel heppnaðir. Þetta var fimmta árið í röð sem Norðurljósahópurinn, sem samanstendur af stórstjörnum á borð við Sölku Sól, Jón Jónsson, Magna, Daða, Sigríði Thorlacius og Álftagerðisbróðirnum Óskari Péturssyni, heldur sína árlegu jólatónleika í Hofi. 

Dansinn var allsráðandi á sunnudaginn þegar 400 norðlenskir listamenn á öllum aldri stigu á svið Hofs á jóladanssýningu Dansskóla STEPS. Danshóparnir settu jólaævintýrið Þegar Trölli stal jólunum í dansbúning en sýningin hófst á á dansverkinu Frostkristallar.

Til baka