Stór helgi framundan

Verkið Skjaldmeyjar hafsins verður frumsýnt á morgun, fimmtudag. Mynd: Auðunn Níelsson.
Verkið Skjaldmeyjar hafsins verður frumsýnt á morgun, fimmtudag. Mynd: Auðunn Níelsson.

Það er stór helgi framundan hjá Menningarfélagi Akureyrar. Verkið Skjaldmeyjar hafsins verður frumsýnt á morgun, fimmtudag, í Samkomuhúsinu. Um nýtt leikverk er að ræða úr smiðju þeirra sem sýndu heimildaleikverkið Elska – ástarsögur Norðlendinga, sem var ein vinsælasta gestasýningin hjá LA haustið 2016. Þá var umfjöllunarefnið ástin en í þetta sinn eru það ónefndar hetjur hafsins, eiginkonur sjómanna, sem eru umfjöllunarefnið.

Sýningin er samstarfsverkefni leikhópsins Artik og Leikfélags Akureyrar og er styrkt af mennta- og menningarmálaráðuneytinu og Uppbyggingarsjóði Norðurlands Eystra.

Á föstudags- og laugardagskvöldið er komið að Reykjavík Kabarett. Hópurinn heimsækir nú Akureyri í annað sinn með stærri og ruglaðri sýningu en síðast. Enn eru til einhverjir miðar á sýningarnar á www.mak.is.

Á föstudaginn verður skemmtileg stemning á hamingjustund á 1862 Nordic Bistro þegar söngkonan Rán Ringsted, ásamt Kristjáni Edelstein og Phillip Doyle, spila fyrir gesti. Á sunnudaginn verða svo tvær sýningar af fjölskyldusöngleiknum Gallsteinum afa Gissa í Samkomuhúsinu en sýningin hefur heilla áhorfendur á öllum aldri.

Það ætti því að vera eitthvað fyrir alla sem vilja kíkja í fjörið, hvort sem það er í Samkomuhúsinu eða Hofi yfir helgina.