Fara í efni

Spilaði með SN ásamt foreldrum sínum

Hin tólf ára Helga Björg þreytti frumraun sína með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands á laugardagskvöldið þegar hún spilaði á tónleikunum Fullveldiskantata „Út úr kofunum“ í Menningarhúsinu Hofi.

Helga lék á víólu en hún byrjaði fimm ára að læra á hljóðfærið en hún er einnig að læra á rafmagnsbassa. Hún spilaði á tónleikunum ásamt stórum hópi listarmanna og þar á meðal foreldrum sínum, Unu Björgu Hjartardóttur og Kjartani Ólafssyni, sem bæði hafa lengi spilað með sinfóníuhljómsveitinni.

Fullveldiskantatan er nýtt verk í söngleikjastíl eftir Michael Jón Clarke og Sigurð Ingólfsson og var samin í tilefni að aldar afmæli fullveldis Íslands. Auk Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands tóku Strengjasveit Fullveldisins, Hymnodia og Æskuraddir Fullveldisins þátt í flutningnum auk einsöngvaranna Stefáns Jakobssonar, Þórhildar Örvarsdóttur og Gísla Rúnars Viðarssonar.

Fullveldiskantatan var flutt fyrir fullum sal Hamraborgar og hlutu höfundar og flytjendur mikið lof að henni lokinni.  

Til baka