Fara í efni

Söngvaflóð, Kabarett og Sinfónískar konur

Anna Þorvaldsdóttir – mynd: Hrafn Ásgeirsson
Anna Þorvaldsdóttir – mynd: Hrafn Ásgeirsson

Mikið verður um að vera hjá Menningarfélagi Akureyrar um helgina líkt og síðustu daga. Alla vikuna hafa nemendur úr leikskólum og grunnskólum bæjarins fjölmennt í Hof í boði Tónlistarskóla Akureyrar til að taka þátt í Söngvaflóði. Mikið fjör hefur fylgt krökkunum sem fengu tækifæri til að syngja þekkt og skemmtileg lög með Gretu Salóme og félögum.

 

Á fimmtudaginn verður aukasýning á söngleiknum Kabarett í Samkomuhúsinu en vegna vinsælda eru sýningar milli jóla og nýjárs sem og á nýju ári komnar í sölu. Kabarett verður einnig á sviði föstudag og laugardag en nánast uppselt er á þær sýningar.

 

Á fimmtudaginn verða tónleikarnir Þrælar – afrískri/amerískir vinnusöngvar fluttir af þeim Guðrúnu Ösp Sævarsdóttur mezzósópran og Helgu Kvam píanóleikara. Tónlistarkonurnar ætla að flytja rótgróna vinnusöngva frá tímum þrælahalds við útsetningar Harry T. Burleigh en tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði Hofs og Samkomuhússins.

 

Á sunnudaginn verða svo stórtónleikarnir Sinfónískar konur þar sem Sinfóníuhljómsveit Norðurlands flytur hljómsveitarverkið Ólafur Liljurós eftir eitt af höfuðskáldum Íslendinga, Jórunni Viðar, en Jórunn hefði átt aldarafmæli á árinu. Verkið verður flutt í fyrsta sinn í upprunagerð fyrir sinfóníuhljómsveit undir stjórn Hallfríðar Ólafsdóttur. Einnig verða leikin verk Fanny Mendelssohn og samtímatónskáldið Önnu Þorvaldsdóttur.

Til baka