Skráning hafin í Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar.
Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar (LLA) hefur opnað fyrir skráningu á haustnámskeið skólans. Hér getur þú skráð þig, einnig er tekið við skráningum á heimasíðu Rósenborgar. Skráningu lýkur föstudaginn 16. september.
Kennsla hófst mánudaginn 5. september hjá nemendum í 5.-10. bekk og miðvikudaginn 7. september hjá nemendum í 3. og 4. bekk. Eldri hópurinn verður á mánudögum kl 16 og kl. 17. 30 og yngri hópurinn á miðvikudögum kl. 16. Kennslan fer fram í Hofi. Um miðbik annar verður foreldrum og forráðamönnum boðið að kíkja í tíma en haustönninni lýkur með kynningu eða sýningu í vikunni 7. - 11. nóvember og þá er tímasókn jafnan aukin.
Haustnámskeiðið er ætlað börnum og unglingum í 3. - 10. bekk grunnskóla. Skipt verður í hópa eftir reynslu og aldri. Eldri hóparnir eru einu sinni í viku í 90 mín í senn en yngsti hópurinn er 60 mín í senn. Kennt er einu sinni í viku í 10 skipti.
Skólagjaldið er 30.000 kr. fyrir elstu tvo hópanna en 25.000 kr. fyrir yngsta hópinn.
Það er 50% systkinaafsláttur og hægt er að nota frístundastyrkinn í LLA.
Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar hefur verið starfandi frá því árið 2009. Um 75 nemendur sækja skólann á hverju misseri og hafa margir hverjir verið með frá upphafi. Markmið skólans er að gefa ungu fólki tækifæri til að þroska og þróa aðferðir til að beisla sköpunarkraft sinn og beina honum í listrænan farveg. Skólinn leggur áherslu á sviðslistir í sinni víðustu merkingu. Nú á haustönn verður lagt upp með sköpun með uppsprettu í tónlist, umhverfi, hlutum og rými.
Kennarar námskeiðsins eru þær Berglind Jónsdóttir og Hrafndís Bára Einarsdóttir. Berglind er leikari og útskrifaðist frá Leiklistarskólanum Holberg í Kaupmannahöfn 2008. Hún hefur kennt áður við skólan við góðan orðstír. Hrafndís Bára útskrifaðist með leiklistargráðu árið 2010. Hrafndís Bára er nýr kennari hjá skólanum en hún hefur unnið að ýmsum verkefnum í leiklist en þó aðallega leikstjórn. Við bjóðum hana velkomna til starfa! Þær stöllur eru spenntar fyrir komandi önn og vonast til að sjá sem flesta.