Fara í efni

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hlýtur hvatningarverðlaun Dags íslenskrar tónlistar

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands hlaut sérstök hvatningarverðlaun á Degi íslenskrar tónlistar 2020 sem haldinn var hátíðlegur fyrr í dag, þriðjudaginn 1. desember. Verðlaunin fær sinfóníuhljómsveitin fyrir öfluga og metnaðarfulla dagskrá undanfarin ár, meðal annars kvikmyndartónlistarverkefnið SinfoniaNord.

Í tilefni dagsins var boðið til dagskrár í Iðnó við Reykjavíkurtjörn þar sem velunnurum íslenskrar tónlistar voru veittar viðurkenningar fyrir framúrskarandi umfjöllun og stuðning við íslenska tónlist og loks voru fluttar þrjár íslenskar dægurperlur sem voru í forgrunni fyrir þennan dag.

Það voru stofnendur SinfoNord verkefnisins, tónskáldin Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson og Atli Örvarsson sem veittu viðurkenningunni viðtöku.

Það er Samtónn sem stendur að Degi íslenskrar tónlistar en að baki Samtóni standa FÍH, FHF, STEF, SFS, FTT og Tónskáldafélag Íslands. Markmið Samtóns er að vinna að sameiginlegum hagsmunum íslenskra tónlistarmanna og fagaðila, styrkja stöðu höfunda, flytjenda, framleiðenda og annarra rétthafa.

 

Til baka