Fara í efni

Risastórt Rokkland hjá SinfóniaNord

Magni Ásgeirs heiðrar Freddie Mercury í faðmi SinfóniaNord, 50 manna kór, sönghópnum Rok og Todmobil…
Magni Ásgeirs heiðrar Freddie Mercury í faðmi SinfóniaNord, 50 manna kór, sönghópnum Rok og Todmobile bandinu.

Síðastliðinn laugardag fóru fram risastórir tónleikar í Hofi þegar SinfóniaNord sameinaðist Rokklandi á Rás 2 og hélt epíska tónleika þar sem sinfónískt rokk var leikið fyrir troðfullu húsi. 

Árið 2024 hafði Óli Palli "forseti" Rokklands samband við Þorvald Bjarna tónlistarstjóra Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stakk upp á að 30 ára afmæli Rokklands yrði fagnað á Akureyri. Þorvaldur þurfti ekki að hugsa sig tvisvar um og var lagt af stað í vegferð sem hefur verið tæplega ár í undibúningi 

Una Torfa, Sigríður Thorlacius, Stína Ágústsdóttir, Jónas Sig, Magni Ásgeirs, Eyþór Ingi, Jónína Björt og Andrea Gylfa skiptust á að flytja margar af helstu perlum tónlistarsögunnar með dyggri aðstoð frá SinfóniaNord í hljómsveitarstjórn Sóleyjar Bjarkar Einarsdóttur,  Todmobile bandinu, 50 manna kór og sönghópnum Rok frá Akureyri. 

Uppsetning og framkvæmd var á heimsmælikvarða og var hver fermeter á sviðinu í Hofi nýttur fyrir listamenn, hljóðfæri og annan búnað.  Var þetta enn ein sönnun þess hversu magnaður tónleikastaður Hof í raun er. 
Upplifun listamanna sem og áhorfenda af viðburðinum var öll á sama veg, hreinlega stórkostleg upplifun!

Næstu verkefni Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands eru tónlistin í Birtíng sem sett verður upp hjá Leikfélagi Akureyrar eftir áramót, tónleikar í mars þegar tónskáldið Jón Nordal verður heiðrað, Ljós í myrkri, þar sem verk Atla Örvarssonar verða flutt og svo Sirkutónar, sem ætlað er nemendum grunnskólanna. Samhliða því er svo nóg að gera hjá SInfóniaNord við upptökur á fjölbreyttum tónlistarverkefnum. 

Hægt er að kynna sér nánar verkefni Sinfóníuhljómsveitarinnar inn á heimasíðu Menningarfélags Akureyrar: Viðburðir Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands 24/25

Til baka