Fara í efni

Ör, Ðe Lónlí Blú Bojs og Gustur um goluengi

Það verður eitthvað fyrir alla hjá Menningarfélagi Akureyrar um helgina.

Gestasýning Þjóðleikhússins Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) verður í Samkomuhúsinu föstudags- og laugardagskvöld. „Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ sagði Auður Ava Ólafsdóttir þegar hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 fyrir skáldsöguna Ör, sem kom út árið 2016. Skáldsagan spratt á sínum tíma af uppkasti Auðar Övu að leikriti sem hún hefur nú lokið við að semja. Leikritið er sjálfstætt verk sem lýtur eigin lögmálum, þótt það byggist á sama grunni og skáldsagan. Leikritið ÖR (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er í senn órætt, fyndið og ágengt, og spyr áleitinna spurninga um lífið og dauðann, samskipti kynjanna og leit að samastað í veröldinni.

Á laugardagskvöldið verður söngleikurinn Ðe Lónlí Blú Bojs í Hofi. Söngleikurinn er með lögum frá Ðe Lónlí Blú Bojs sem allir ættu að kannast við, þar á meðal Heim í BúðardalHarðsnúna Hanna og Diggi Liggi Ló. Leikendur eru Agla Bríet Einarsdóttir, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Ingi Þór Þórhallsson, Jón Svavar Jósefsson, Mímir Bjarki Pálmason, Styr Orrason og Vilberg Andri Pálsson.

Á sunnudeginum er komið að tónleikunum Gustur um goluengi. Hjónin Elvý G Hreinsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson fá Birki Blæ, Hauk Pálmason og Stefán Gunnarsson í lið með sér og munu þau flytja hugljúfa og þjóðlega tónlist frá ýmsum heimshornum. Viðburðurinn hlaut styrk frá listsjóðnum VERÐANDI.

Til baka