Ör, Ðe Lónlí Blú Bojs og Gustur um goluengi

Það verður eitthvað fyrir alla hjá Menningarfélagi Akureyrar um helgina.

Gestasýning Þjóðleikhússins Ör (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) verður í Samkomuhúsinu föstudags- og laugardagskvöld. „Ég er að skrifa gegn myrkrinu í heiminum,“ sagði Auður Ava Ólafsdóttir þegar hún hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2018 fyrir skáldsöguna Ör, sem kom út árið 2016. Skáldsagan spratt á sínum tíma af uppkasti Auðar Övu að leikriti sem hún hefur nú lokið við að semja. Leikritið er sjálfstætt verk sem lýtur eigin lögmálum, þótt það byggist á sama grunni og skáldsagan. Leikritið ÖR (eða Maðurinn er eina dýrið sem grætur) er í senn órætt, fyndið og ágengt, og spyr áleitinna spurninga um lífið og dauðann, samskipti kynjanna og leit að samastað í veröldinni.

Á laugardagskvöldið verður söngleikurinn Ðe Lónlí Blú Bojs í Hofi. Söngleikurinn er með lögum frá Ðe Lónlí Blú Bojs sem allir ættu að kannast við, þar á meðal Heim í BúðardalHarðsnúna Hanna og Diggi Liggi Ló. Leikendur eru Agla Bríet Einarsdóttir, Berglind Alda Ástþórsdóttir, Ingi Þór Þórhallsson, Jón Svavar Jósefsson, Mímir Bjarki Pálmason, Styr Orrason og Vilberg Andri Pálsson.

Á sunnudeginum er komið að tónleikunum Gustur um goluengi. Hjónin Elvý G Hreinsdóttir og Eyþór Ingi Jónsson fá Birki Blæ, Hauk Pálmason og Stefán Gunnarsson í lið með sér og munu þau flytja hugljúfa og þjóðlega tónlist frá ýmsum heimshornum. Viðburðurinn hlaut styrk frá listsjóðnum VERÐANDI.