Fara í efni

New Orleans, samba og Skjaldmeyjar hafsins

Mynd: Auðunn Níelsson
Mynd: Auðunn Níelsson

Helgin í Hofi hefst strax seinnipartinn í dag þegar sveiflukvintettinn Old Scool heldur uppi fjörinu á 1862 Bistro. Kvintettinn er skipaður Ara Braga Kárasyni, Pálma Gunnarssyni, Phillip Doyle, Einari Scheving og Tómasi Jónssyni ásamt söngkonunni Kristjönu Stefánsdóttur. Sveitin mun spila ósvikna swing-tónlist í anda New Orleans og er aðgangseyrir 1500 krónur.

Í kvöld verður önnur sýning af Skjaldmeyjum hafsins í Samkomuhúsinu. Verkið, sem fjallar um blákaldan sannleikann sem konur sjómanna glíma við þegar erfiðleikar steðja að úti á hafi, hefur fengið feykilega góða dóma. Aðeins tvær sýningar eru eftir af þessari áhugaverðu sýningu.

Á morgun, laugardag, fer fram Nótan - uppskeruhátíð tónlistarskóla í Hofi. Flutt verða 24 atriði sem hafa verið valin af fernum svæðistónleikum Nótunnar. Þátttakendur eru frá öllu landinu, á öllum aldri og á öllum stigum tónlistarnámsins.

Á sunnudaginn verður svo kvarnivalsstemning í Hofi með sambadansi og brasilískum mat og tónlist. Nánari upplýsingar og miðasala er á mak.is.

Að lokum má minna á að sýningu Þrándar Þórarinssonar lýkur eftir helgi. Sýningin hefur fengið fádæma athygli og því um að gera að líta við í Hof áður en það verður of seint.

Til baka