Fara í efni

LÝSA hafin í Hofi

Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdarstjóri LÝSU, Jón Gnarr og Halla Björk Reynisdóttir, forset…
Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdarstjóri LÝSU, Jón Gnarr og Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar. Mynd: Daníel Starrason

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins hófst í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri í morgun. Hátíðin stendur yfir í dag, föstudag, og laugardag og eru yfir 50 viðburðir á dagskrá.

Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, setti hátíðina og Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdarstjóri LÝSU, og Jón Gnarr, skemmtikraftur og fyrrum borgarstjóri, héldu ávörp. Í ræðu sinni þakkaði Þuríður Helga þátttakendum LÝSU sem með viðburðum sínum, krafti og áhuga gera hátíðina að því sem hún er.

„Það er ykkur að þakka að hér fara fram yfir 50 viðburðir þar sem ljósi er varpað á fjölmörg ólík málefni. Nafnið, LÝSA Rokkhátíð samtalsins vísar einmitt til þess að á hátíðinni á sér stað upplýsandi samtal um samfélagið og kastljósinu er beint að margvíslegum hagsmunamálum. Rokkið vísar líka til þeirrar stemmingar sem er í loftinu og þess að það er bara skemmtilegra að hafa rokk með í öllu sem við gerum,“ sagði Þuríður Helga í ræðu sinni.

Eftir setninguna steig tónlistarfólkið Andrea Gylfadóttir og Kristján Edelstein á svið og skapaði notalega stemningu með fallegri tónlist sinni.

Framundan er fjölbreytt dagskrá. SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi, Bandalag háskólamanna, Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi og Krabbameinsfélagið er á meðal viðburðahaldara í dag. Klukkan 15:30 fær svo fjölmiðlakonan Guðrún Sóley Gestsdóttir til sín góða gesti í sófaspjall undir yfirskriftinni Speglar listin samfélagið? Í sófann til Guðrúnar mæta Jón Gnarr, Matthías Tryggvi Haraldsson, úr Hatara, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, teiknari og tónlistarkóna, og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. Tónlistarmaðurinn Mugison tekur svo nokkur lög.

Laugardagurinn hefst á fyrirlestrinum Fljúgðu inn í haustið með Sölva Tryggva og svo munu Barnaheill, Landsvernd, Umboðsmaður barna, Iðnfélögin, Félag sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Alþingi og Íslandsbanki standa fyrir viðburðum ásamt ýmsum öðrum. Klukkan 16 verður aftur sófaspjall en á er komið að Sölva Tryggvasyni að taka á móti gestum í sófann. Þar á eftir stígur uppistandarinn Snjólaug Lúðvíksdóttir á svið og svo endar kvöldið með súpu frá Samfylkingunni og notalegum tónum tónlistarmannanna Jóns Ólafssonar og Stefáns Hilmarssonar.

Allir viðburðir LÝSU er opnir öllum. Engin skráning og enginn aðgangseyrir.

 

 

 

Til baka