Lolla er tannlæknir
Leikkonan Ólafía Hrönn mun klæðast búning tannlæknisins hryllilega í uppsetningu Leikfélags Akureyrar á Litlu Hryllingsbúðinni. Ólafía er ein vinsælasta og reynslumesta leikkona landsins og hefur sett sig í hin ýmsu gervi á leiklistarferli sínum. Hún hefur bæði hlotið Grímu- og Edduverðlaun fyrir leik sinn og sló rækilega í gegn með Heimilistónum í Söngvakeppni sjónvarpsstöðvanna þegar þær þrifu sviðið með kúst og fæjó.
Því ætti það ekki að vera nokkuð mál fyrir svo fjölhæfa manneskju að stíga í spor leikara eins og Steve Martin, Ladda og Stefáns Karls og gera hlutverk tannsa að sínu. „Ég hef margoft unnið með Lollu og datt hún strax í hug þegar kom að því að finna leikara í hlutverkið“ segir Bergur Þór, leikstjóri Litlu Hryllingsbúðarinnar. „Hún hefur þannig viðveru á sviðinu að mér fannst hún smellpassa sem þessi klikkaði karakter, hún er afkaplega skemmtileg og aðlaðandi frá náttúrunnar hendi en getur líka leikið fólk sem bítur frá sér, sem er eiginlega uppskriftin af tannlækninum sem allir hræðast“ Litla Hryllingsbúðin er stórskemmtilegur söngleikur sem er stöðugt í sýningu um allan heim. Sýningar Leikfélags Akureyrar verða eingöngu í október og nóvember og því um að gera að næla sér sem fyrst í miða. Litla Hryllingsbúðin er sýnd í Samkomuhúsinu á Akureyri.