Fara í efni

Listasumar í Hofi

 

Menningarfélag Akureyrar og Listasumar taka höndum saman og bjóða meðal annars upp á dans, pönk og íslenskar söngperlur í Hofi í sumar.

Hulda Sif Hermannsdóttir verkefnastjóri viðburða- og menningarmála hjá Akureyrarstofu fagnar afar góðri samvinnu Listasumars og Menningarfélags Akureyrar og segir hana auðga dagskrá Listasumars. „Aðstaðan sem Menningarfélagið býður upp á er afar mikilvæg bæði fyrir listafólk og þá sem vilja sækja menningarviðburði, ekki bara á veturna heldur líka á sumrin“.

Viðburðastjóri Menningarfélagsins Kristín Sóley Björnsdóttir fagnar samstarfinu við bæði forsvarsfólk Listasumars sem og allt listafólkið sem stendur fyrir viðburðunum. „Það er ótrúlega skemmtilegt að fá svo fjölbreytta, forvitnilega og spennandi viðburði í húsið í sumar sem laðar að ólíka áheyrendur/áhorfendur þ.e.a.s. íbúa og gesti þeirra ásamt innlendum og erlendum ferðamönnum. Það er von okkar að sem flestir nýti tækifærið til að njóta og upplifa það sem listafólkið býður upp á hér í sumar“.  

Það eru þær Þórhildur Örvarsdóttir söngkona og Helga Kvam píanóleikari sem ríða á vaðið þann 29. júní með tónleikunum Íslenskar söngperlur í áranna rás. Á dagskrá verða lög eftir Sigvalda Kaldalóns, Jóhann Helgason, Gunnar Þórðarson og fleiri, eitthvað sem Íslendingar þekkja vel og nokkuð sem erlendir ferðamenn geta auðveldlega heillast af.

Þann 13. júlí verða pönktónleikar í húsinu. Þá troða upp hljómsveitirnar Úlfar, World Narcosis og Brák. Sveitirnar eiga það sameiginlegt að vera á jaðri nútímatónlistar og hafa gert það gott á íslensku jaðarsenunni undanfarin ár. Þetta er einstakt tækifæri til að sjá World Narcosis í fyrsta sinn á Akureyri og þetta eru fyrstu tónleikar Úlfa og Brákar norðan heiða á árinu. Þann 20. júlí stígur söngkonan Vala Yates á svið ásamt gítarleikaranum Dimitrios Theodoropoulosen. Vala er klassískt menntuð söngkona og tónskáld sem stígur nú í fyrsta sinn fram með sitt eigið efni. Tónleikar hennar á Listasumri eru fyrstu tónleikar hennar af sjö sem hún heldur á Norðurlandi í sumar. Dansgjörningurinn Never Pink tekur við þann 27. júlí en fyrir honum fer Yuliana Palacios. Dansgjörningurinn fjallar um hversu sterkir allir eru og í tengslum við tilfinningar sínar.

Lokaviðburður Listasumars í Hofi verða tónleikar Fanneyjar Kristjáns Snjólaugardóttur þann 17. ágúst þar sem hún heiðrar minningu djasssöngkonunnar Ellu Fitzgerald sem hefði orðið 100 ára á árinu. Með Fanneyju verða þau Helga Kvam píanóleikari, Stefán Ingólfsson bassaleikari og Rodrigo Lopes slagverksleikari.

Allar nánari upplýsingar um viðburði Listasumars í Hofi má finna á heimasíðu Mak, www.mak.is

Listasumar á Akureyri verður sett laugardaginn 24. júní og lýkur 26. ágúst á Akureyrarvöku. Allar nánari upplýsingar um heildardagskrá Listasumars má finna á listasumar.is og á fésbókarsíðu Listasumars. 

Til baka