Fara í efni

Liprar tær og fingur í Hofi

Það verður mikið dansað í Hofi um helgina, bæði bókstaflega og á nótnaborðinu. Tveir dansskólar halda nefnilega sýningar í húsinu, auk þess sem ungur píanóleikari heldur tónleika.

Á laugardaginn fara nemendur Steps Dancecenter í ferðalag um heiminn og blanda saman áhrifum frá Bandaríkjunum, Spáni, Kenía, Frakklandi, Indlandi, Kúbu og Brasilíu í sýningunni Á ferðalagi um dansheiminn. Alls verða 4 sýningar á laugardeginum.

Á sunnudaginn er svo komið að nemendum Dansstúdíó Alice, þar sem um 200 nemendur á aldrinum 2-50 ára taka þátt í danssýningunni Alice í Undralandi. Sýningin sækir innblástur í klassíska sögu Lewis Carroll og skartar skrautlegum persónum. Sýningarnar verða 2.

Á sunnudagskvöldinu verður svo skipt um gír þegar Alexander Smári Edelstein leikur á einleikstónleikum á píanó í Hömrum. Alexander er fæddur 1998 og hefur m.a. hlotið tvenn verðlaun frá EPTA (Evrópusamband píanókennara) og sérstök verðlaun sem einleikari þegar hann tók þátt í Nótunni, uppskeruhátíð tónlistaskólanna. Tónleikarnir eru styrktir af Tónlistarsjóði Hofs og Samkomuhússins.

Til baka