Fara í efni

Lífleg heimsókn í Samkomuhúsið, Bosch ísskápur og norðlenskur hreimur...

Mikið líf myndaðist í Samkomuhúsinu þegar um 100 manns úr Félagi eldri borgara á Akureyri heimsóttu leikhússtjóra ásamt leikstjóra og leikurum sýningarinnar Elskan, er ég heima?

Bergur Þór leikhússtjóri, fór yfir starfsemina og leiddi gesti um húsið og fengu viðstaddir að fylgjast með æfingu ásamt því að stíga á svið og þreifa á leikmynd og leikmunum verksins.

Elskan, er ég heima? fjallar um par í nútímanum sem ákveður að skipta algjörlega um lífstíl og lifa líferni sjötta áratugarins og öllu sem því tilheyrir. Leikmunir eru því margir frá þeim tíma og voru ófáar minningar sem rifjuðust upp er gestir báru þá augum. Ísskápurinn vakti sérstaka athygli og voru margir sem höfðu sögur að segja af álíka ferlíki í sinni æsku. Ein minntist á að það hefðu nú ekki komið ísskápur á sitt heimili fyrr en hún var orðin 7 ára gömul og þá hefði það verið Bosch ísskápur að sömu tegund og sá er prýðir sviðsmyndina. 

Mikil ánægja var meðal gesta með heimsóknina og sömuleiðis hjá aðstandendum sýningarinnar, enda gott að fá minningar frá þessum árum beint í æð sem jafnvel gæti nýst í uppsetningu verksins, einn gestur minntist. t.d. á að mikivægt væri að persónur verksins töluðu með norðlenskum hreim þar sem sagan er stílfærð og gerist á Akureyri.  Þýðandi verksins er Akureyringurinn Vilhjálmur Bragason, leikstjórn er í höndum Ilmar Kristjánsdóttur og leikarar eru Hólmfríður Hafliðadóttir, Ólafur Ásgeirsson, Edda Björgvinsdóttir, Hjalti Rúnar Jónsson, Urður Bergsdóttir og Vigdís Halla Birgisdóttir.

Frumsýning er 11. október og af stemningu að dæma í lok heimsóknar verður nóg að gera í miðasölu Menningarfélags Akureyrar á næstu dögum.

Til baka