Fara í efni

Líf og fjör um páska

Stórstjarnan Garðar Thor Cortes er einn af einsöngvurum á Mozart tónleikunum.
Stórstjarnan Garðar Thor Cortes er einn af einsöngvurum á Mozart tónleikunum.

Það verður sko aldeilis líf og fjör hjá Menningafélagi Akureyrar um páskana! Í kvöld, miðvikudag, verða notalegir og öðruvísi tónleikar í Hömrum í Hofi, með Birni Helga Björnssyni, handhafa fyrstu verðlauna EPTA fyrir píanóleik. Tónleikarnir fara fram í Hömrum en áhorfendur liggja á gólfinu á meðan Björn leikur ljúfa og rólega tóna eftir Bach, Chopin og Schumann. Tónleikarnir, Ró/kyrrð, hefjast klukkan 20:30 og kostar litlar 1500 krónur inn. Það er varla hægt að hugsa sér betri byrjun á hátíðinni.

Á morgun, skírdag, er komið að stóru stundinni þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ásamt Söngsveitinni Fílharmóníu og Kammerkór Norðurlands flytja tvö af dramatískustu verkum Mozarts. Hljómsveitarstjóri er hin finnska Anna-Maria Helsing en einleikari er norðlenska vonarstjarnan Alexander Edelstein. Einvalalið einsöngvara taka þátt í tónleikum; Garðar Thor Cortes, Hanna Dóra Sturludóttir, Ágúst Ólafsson og Helena Guðlaug Bjarnadóttir. Uppselt er á tónleikana í Hofi en aðrir tónleikar verða á föstudaginn langa í Langholtskirkju.

Á skírdag fer fram síðasta sýning af Skjaldmeyjum hafsins í Samkomuhúsinu en verið hefur fengið góða dóma og viðtökur.

Á laugardaginn verða tvær sýningar af söngleiknum Gallsteinar afa Gissa í Samkomuhúsinu. Um næstsíðustu sýningarhelgi er að ræða svo þeir sem ætla ekki að missa af þessum sprenghlægilega söngleik ættu að hafa hraðar hendur.

Á laugardaginn verða svo stórtónleikar í Hamraborg þegar söngkonan Emilíana Torrini fer yfir glæstan feril sinn ásamt Jóni Ólafssyni. Miðasala er á mak.is.

Strax eftir páska fer fram Bókmenntahátíð á Akureyri sem fram fer í Hofi. Þar munu meðal annars koma fram rithöfundarnir Lily King, sem skrifaði hina margverðlaunuðu Euphoria, og Hallgrímur Helgason.

Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi þessa páskana.

 

Gleðilega páska!

Til baka