Fara í efni

Líf og fjör á Barnamenningarhátíð í Hofi

Það verður af nægu að taka í Hofi í tilefni Barnamenningarhátíðar í næstu viku. Á miðvikudaginn fer fram Hæfileikakeppni Akureyrar fyrir börn í 5.-10. bekk. Viðburðurinn er frábært tækifæri fyrir ungt fólk til að koma sér á framfæri og til þess að stíga út fyrir þægindarammann. Skráning er hér og stendur til morguns. Enginn aðgangseyrir er á keppnina og opnar húsið kl. 15.30.

Í tilefni sumardagsins fyrsta verða fjórir viðburðir í Hofi. Barnasögusýningin Vorið kemur er sýnd kl. 13. Í sýningunni segja Bríet blómálfur og Skringill skógarálfur frá komu vorsins og færa börnunum glaðsning svo börnin geti hjálpað vorinu að koma! Sannarlega skemmtileg og fræðandi sýning fyrir börn á leikskólaldri.

Klukkan 14 fer fram  Ofurhetjuperl – smiðjan hans Snorra Valdimars, átta ára. Snorri, sem er mikill Marvel aðdáandi og flinkur perlari, er með sýningu á perli í Sundlaug Akureyrar og býður að því tilefni gestum og gangandi að mæta í Hofi og perla sína eigin ofurhetju.

Á sama tíma verður sýningin  Tónatal opnuð. Verkefnið er samstarf hópa barna sem skapa myndverk annarsvegar og barna sem syngja í barnakór hinsvegar. kórinn syngur nokkur lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, kórstjóra og organista, og á veggjum í Hamragili verða myndverk eftir börn í 4.-7. bekk Glerárskóla, unnin undir áhrifum tónlistarinnar þar sem þema laganna er vorkoma og sumar.

Klukkan 16 er komið að stóru stundinni þegar sjálfur  Páll Óskar stígur á svið Hamraborgar. Enginn annar en norðlenski rapparinn Ragga Rix hitar upp fyrir poppstjörnuna. Tónleikarnir standa í klukkustund. Öll velkomin!

Sunnudaginn 23. apríl er svo komið að síðasta viðburðinum í tilefni Barnamenningarhátíðar í Hofi þegar Karnival dýranna fer fram. Um tvö lítil tónlistarævintýri er að ræða sem túlkuð eru af flautukór nemenda úr Tónlistarskóla Akureyrar og Kópavogs. Öll flautufjölskyldan fær að hljóma, frá kontrabassaflautu upp í pikkóló flautu. Viðburðurinn hefst kl. 13.

Allir viðburðir barnamenningarhátíðar í Hofi eru styrktir af Barnamenningarsjóði Akureyrarbæjar.

Til baka