Fara í efni

Líf og fjör á Barnabókahátíð

Það var líf og fjör í húsinu í vikunni þegar Barnabókahátíð í Hofi var haldin í fyrsta sinn en hátíðin samanstóð af fimm viðburðum.

 

Það voru 30 hressir krakkar sem mættu á miðvikudaginn með penna í hönd, galopin eyru og bros á vör í ritlistarsmiðjur með Bjarna Fritzsyni og Gunnari Helgasyni.

 

Í gær mættu rúmlega 600 nemendur úr fimmta, sjötta og sjöunda bekk grunnskóla á Akureyri og Þelamörk á sannkallaðan Höfundahasar í Hamraborg. Nemendur úr sjötta og sjöunda bekk Nausta- og Giljaskóla voru kynnar og umræðustjórar og með þeirra hjálp fékk hópurinn að kynnast Rán Flygenring, Gunnari Helgasyni, Brynhildi Þórarinsdóttur og Bjarna Fritzsyni betur. Kennararnir voru þeim til hald og traust og samnemdur þeirra voru í kappliðinu svo fjörið og orkan í salnum var mikil.

 

Seinnipartinn mættu hátt í 60 gestir til að hlusta á upplestur og frásagnir Brynhildar, Gunnars og Ránar sem léku á alls oddi. Auk þess las Snjóki M. Gunnarsson, sigurvegari Upphátt upplestrarkeppni upp úr bók Bjarna. Rán snarteiknaði viðburðinn og bauð gestum, ungum sem öldnum, að æfa sig að snarteikna í lokin. Ungu gestirnir fengu eiginhandaáritun höfundanna í bækur og á blöð og skemmtileg stemning myndaðist þegar opnað var fyrir spurningar úr sal.

 

Gunnar Helgason var ánægður að lokinni hátíðinni.

„Það er búið að vera dásamlega gaman í Hofi. Ofsalega vel skipulagt og krakkarnir fáránlega skemmtilegir.“

 

Takk öll fyrir komuna!

 

Barnabókmenntahátíðin er samvinnuverkefni Menningarhússins Hofs, Barnabókaseturs Íslands, Naustaskóla og Giljaskóla sem eru réttindaskólar UNICEF hér á Akureyri. Verkefnið er svo styrkt af Uppbyggingasjóð SSNE og Akureyrarbæ.

Til baka