Fara í efni

La Traviata í Hofi um helgina

Óperan La Traviata eftir Verdi verður sýnd í Hofi um helgina en óperan var sýnd í fullri Eldborg um síðustu helgi. La Traviata hætti fyrir fullu húsið vorið 2019 og nú hefur Herdís Anna Jónasdóttir snúið aftur sem Víóletta en Herdís Anna hlaut Grímuverðlaun fyrir túlkun sína.

Sinfóníuhljómsveit Norðurlands sér um hljómsveitarleikinn en hljómsveitarstjóri er engin önnur en Anna-Maria Helsing. Kór íslensku óperunnar og dansarar koma einnig fram í sýningunni. Kórstjóri er Magnús Ragnarsson. 

Um sögulegt samstarf er að ræða því þetta er í fyrsta sinn sem Íslenska óperan og Menningarfélag Akureyrar stofna til formlegs samstarfs varðandi óperuuppfærslur.

Á undan sýningum á La traviata segir Guðni Tómasson, tónlistaráhugamaður og dagskrárgerðarmaðurá Rás 1, frá verkinu og sköpun þess. Hann staðsetur óperuna í tónsmíðaferli Verdis, segir frá ritskoðunartilburðum og pólitískum titringi í kringum þetta vinsæla verk sem kann að virðast saklaust í dag en var það alls ekki þegar óperan var frumsýnd.

Þar sem fljótlega seldist upp á sýninguna á  laugardagskvöldið var ákveðið að bæta við aukasýningu á  sunnudeginum sem einnig er að verða uppseld.

La Traviata fjallar um lífsgleðina, frelsið og forboðna ást og er í þremur þáttum. Óperan var frumflutt í Feneyjum 6. mars árið 1853 og textinn sem er eftir Francesco Maria Piave er byggður á leikgerð skáldsögunnar Kamelíufrúin eftir Alexandre Dumas.

 

Til baka