Fara í efni

Jón Gnarr á setningu LÝSU

LÝSA – Rokkhátíð samtalsins fer fram í Menningarhúsinu Hofi á Akureyri næstkomandi föstudag og laugardag. Dagskrá hátíðarinnar er fjölbreytt og eru skráðir viðburðir komnir yfir 50 talsins.

Dagskrá LÝSU hefst á föstudagsmorgni með Stórþingi ungmenna og málþingi BHM um fjórðu iðnbyltinguna. Setning LÝSU fer fram um hádegisbilið þar sem Halla Björk Reynisdóttir, forseti bæjarstjórnar Akureyrar, setur hátíðina og skemmtikrafturinn og fyrrum borgarstjórinn Jón Gnarr flytur ávarp.

Jón segir samkomu eins og LÝSU mikilvæga: „Hugmyndir verða oft til í samtali. Við Íslendingar erum rosa góð í að halda ræður en við þurfum að læra betur að tala saman. Umræður um stjórnmál og lýðræði eiga að vera skemmtilegar. Fólk heyrir og man betur eftir því sem er skemmtilegt heldur en leiðinlegt,“ segir Jón Gnarr.

Eftir hádegi standa til að mynda SUNN – Samtök um náttúruvernd á Norðurlandi og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir viðburðum en klukkan 15:30 fær fjölmiðlakonan, Guðrún Sóley Gestsdóttir, til sín góða gesti í sófaspjall undir yfirskriftinni Speglar listin samfélagið? Í sófann mæta Jón Gnarr, Matthías Tryggvi Haraldsson, listamaður og Hatari, Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir, teiknari og tónlistarskona og Harpa Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Íslands. Tónlistarmaðurinn Mugison tekur svo nokkur lög.

Laugardagurinn hefst með krafti á fyrirlestrinum Fljúgðu inn í haustið með Sölva Tryggva. Líkt og með aðra viðburði Lýsu er fyrirlestur Sölva opinn öllum. Barnaheill, Landvernd, Umboðsmaður barna, Iðnfélögin, Félag Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Íslandsbanki og Alþingi eru á meðal viðburðahaldara á laugardeginum en í hádeginu er komið að spennandi Myndasögusmiðju Lóu Hjálmtýs. Smiðjan fer fram á Nönnu.

Klukkan 16 verður sófaspjall Sölva Tryggva sem fær til sín skemmtilega gesti til að ræða umdeild málefni. Eftir sófaspjallið er komið að uppistandi Snjólaugar Lúðvíksdóttur og svo upphitun Stefáns Hilmarssonar og Jóns Ólafssonar sem verða með spjalltónleika í Hamraborg um kvöldið.

Það ættu því allir að finna eitthvað við sitt hæfi á LÝSU en nákvæma dagskrá er að finna á vefnum www.lysa.is

Til baka