Jóla Lóla snýr aftur
Fjölskyldusýningin sem sló í gegn í fyrra hjá Leikfélagi Akureyrar, Jóla Lóla, snýr aftur þessi jól.
Jóla Lóla Skyrgámsdóttir er uppátækjasöm jólasveinastelpa sem á sér þann draum heitastan að fara til byggða og gefa börnum í skóinn. Vinur hennar, sem heitir Vettlingur, er ekki jafn æstur í ævintýraferðir því hann langar helst að vera heima í jólabústaðnum að pakka inn gjöfum. Saman leggja þau þó af stað með Skyrgámi og lenda í svaðilförum þar sem hið pakka-étandi Jólafól kemur við sögu og óbermin Mykjuskán og Kolsteinn bíða í leynum. Þá á eftir að nefna ömmu hennar Jóla Lólu, sem allir kalla Grýlu, en heitir í rauninni Kríla og er krúttleg rokk-amma.
Sýningin sló heldur betur í gegn fyrir jólin í fyrra og var fjöldi barna sem söng lögin úr sýningunni langt fram á sumar. Öll lög sýningarinnar eru eftir Jóa P og Króla í samvinnu við leikhópinn sjálfan. Sýningin var tilnefnd sem barnasýning ársins 2024 og vakti mikla athygli á landsvísu.
Miðasala er hafin og er tilvalið að gera sér dagamun á aðventunni og skemmta sér vel með krökkunum.