Fara í efni

JOKER kvikmyndatónleikar í Hörpu á sunnudaginn

Margverðlaunuð kvikmyndatónlist Hildar Guðnadóttur verður flutt í Eldborg í Hörpu á JOKER kvikmyndatónleikum sunnudaginn 10. október. 

Kvikmyndinni verður varpað á risastórt tjald í Eldborg með tali og áhrifahljóðum um leið og stór sinfóníuhljómsveit Sinfóníuhljómsveit Norðurlands leikur magnþrungna tónlist Hildar. Stjórnandi verður faðir höfundarins, Guðni Franzson.

Tónlist Hildar er þungamiðjan í tilfinningaþrunginni vegferð aðalpersónunnar Arthur Fleck í kvikmyndinni. Frábær blanda af hráum vélrænum hljóðheimi ásamt áleitnum og undurfögrum strengjatónum, oft einungis selló, skapar undirtón vonar og óbærilegrar spennu. Einstök tónlist Hildar öðlast nýtt líf í flutningi SinfoniaNord og framkallar alveg nýja upplifun á JOKER, kvikmynd leikstjórans Todd Phillips og margverðlaunaðri túlkun Joaquin Phoenix í aðalhlutverkinu.

Velgengni tónskáldsins á undanförnum misserum á sér nær engin fordæmi. Fyrir tónlist sína í sjónvarpsþáttaröðinni Chernobyl hefur hún hlotið Emmy og Grammy styttur auk fjölda annarra alþjóðlegra verðlauna. Fyrir tónlistina í JOKER bætti hún svo meðal annars við BAFTA verðlaunum, Grammy og tók nú síðast við sjálfum Óskarnum, fyrst Íslendinga.

“Það er mér mikið ánægjuefni að fá að sjá og heyra JOKER á kvikmyndasýningu með lifandi sinfóníuhljómsveit. Hljómsveitin kom með svo mikla dýpt og næmni í flutningi sínum þegar við hljóðrituðum tónlistina. Við bókstaflega héldum í okkur andanum meðan á upptökum stóð. Þetta var svo fallegt ferðalag og það gleður mig mjög að áhorfendur fái nú að njóta þess á sama hátt,” segir Hildur Guðnadóttir. 

 

Leikstjórinn, Todd Phillips:

Ég tala fyrir hönd okkar allra þegir ég lýsi ánægju minni með að JOKER verði synd á kvikmyndatónleikum. Að mínu mati er það frábær leið fyrir áhorfendur til að upplifa áleitna tónlist Hildar Guðnadóttir og verða vitni að för Joaquin Phoenix í heim geðveikinnar í hlutverki Arthurs.

JOKER - LIVE IN CONCERT verður sýnt víða um Evrópu nú í vor á vegum enska viðburðafyrirtækisins Senbla. Aðeins örfáir  miðar eru eftir á sýninguna á sunnudaginn. Aldurstakmark er 16 ára.

 

Til baka