Fara í efni

Indæl aðventa í Hofi

Það verður í nógu að snúast á aðventunni í Menningarhúsinu Hofi þetta árið. Á morgun, föstudag, koma mikilvægir gestir í hús þegar öll börn í fyrsta bekk grunnskóla Akureyrar koma í heimsókn. Menningarhúsið Hof, í samstarfi við Norðurljós, bjóða krökkunum í þessa skemmtilegu jólastund.

Norðurljósin verða svo með þrenna jólatónleika yfir helgina. Tónleikarnir eru þekktir fyrir að vera í senn léttir og hæfilega hátíðlegir en söngvarar eru Ragnhildur Gísladóttir, Jón Jónsson, Magni Ásgeirsson, Ágústa Eva Erlendsdóttir, Óskar Pétursson, Birkir Blær Óðinsson og Friðrik Dór Jónsson.

Á sunnudaginn er komið að jólasýningu Steps Dancecenter. Dansnemendur munu sýna jólaævintýrið Hvít jól sem sérstaklega var samið fyrir sýninguna.

Um næstu helgi er komið að árlegum jólatónleikum Rigg viðburða með Friðrik Ómar fremstan í flokki. Þetta er í fimmta árið í röð sem tónleikarnir eru haldnir í Hofi. Gestir Friðriks Ómars eru Gissur Páll Gissurarson, Svala Björgvinsdóttir, Margrét Eir, Jógvan Hansen og Sigríður Beinteinsdóttir.

Ari Eldjárn, sem er á flakki með sýninguna Áramótaskop, mætir í Hof þann 20. desember. Ari er fyrir löngu orðinn einn vinsælasti uppistandari þjóðarinnar en í þessu uppistandi mun hann kveðja árið með eftirminnilegum hætti.

Daginn eftir er komið að Þorláksmessutónleikaröð Bubba Morthens sem er ein allra langlífasta tónleikahefð í aðdraganda jóla. Bubbi bregður ekki út af vananum þetta árið og mætir í Hamraborg með kassagítarinn.

Tveimur dögum fyrir jól verða svo jólatónleikar Jóhönnu Guðrúnar og Eyþórs Inga ásamt Gospelkór og Stórhljómsveit Davíðs Sigurgeirssonar. Jóhönnu Guðrúnu og Eyþór Inga þarf vart að kynna, enda eru þau meðal fremstu söngvara þjóðarinnar og óhætt er að slá því föstu að jólaandinn muni svífa yfir Hamraborg á þessum hátíðlegum tónleikum.

Til baka