Fara í efni

Hrekkjavaka, Hlið við hlið, danssýning og Völukvæði

Það verður líf og fjör í  Menningarhúsinu Hofi um helgina. 

Á föstudagskvöldinu fara fram hryllilegir  hrekkjavökutónleikar í Hamraborg í boði Blásarasveitar Tónlistarskólans á Akureyri. Stjórnendur eru Sóley Björk Einarsdóttir og Emil Þorri Emilsson en þau lofa góðri skemmtun fyrir alla fjölskylduna og hvetja auk þess alla til að mæta í hrekkjavökubúningi. Aðgangur er ókeypis. 

Á laugardagskvöldinu er komið að söngleiknum Hlið við hlið. Söngleikurinn, sem hefur slegið í gegn í höfuðborginni, er byggður á lögum þjóðþekkta listamannsins Friðriks Dórs. Falleg, skemmtileg og fyndin stórsýning sem allir hafa gaman af! Sýningin er annað verkefni sjálfstæðs sviðslistahóps sem settu upp sýninguna Ðe Lónlí Blú Bojs í Bæjarbíói í Hafnarfirði, en hún fékk mikið lof og seldust um 20 sýningar upp.

Á sunnudeginum er það svo dansveisla frá Steps Dancecenter, Goðsagnir úr tónlistarsögunni, þar sem listamenn á borð við Elvis Presley, Bítlarnir, George Michael, AC/DC, Whitney Houston, Jennifer Lopez, Emenem, Beyonce & Justin Bieber, Queen & Tina Turner koma við sögu. Á þessari sýningu verður tónlist listamannanna framlengd með tjáningu dansformsins. Sýning sem engin vill missa af.

Á eftir dansinum flytja Þórir Jóhannsson kontrabassaleikari og Ingunn Hildur Hauksdóttir píanóleikari tónlist eftir Zoltán Kodály, Giovanni Bottesini, Max Bruch, Árna Egilsson, Karólínu Eiríksdóttur og Þórð Magnússon á viðburðinum Hljóðs bið ek allar helgar kindir. Þórir og Ingunn tefla fram þessari óvenjulegu blöndu hljóðfæra í verkum sem ýmist eru samin fyrir þessa samsetningu eins og Rhapsodia Þórðar, Völukvæði Árna og Fantasia Bottesinis eða Gradus ad Profundum sem samið er fyrir einleiksbassa og Kol Nidrei sem og Epigrammák sem eru aðlöguð þessum hljóðfærum. 

Tvær sýningar af Benedikt búálfi verða um helgina í Samkomuhúsinu en þetta er næst síðasta sýningarhelgin. Það fer því hver að verða síðastur að sjá þessa frábæru sýningu!

 

 

 

 

 

Til baka