Fara í efni

„Hann var ótrúlega sérkennilegur karl“

„Ég á mínar minningar þótt ég hafi aðeins verið sex ára þegar hann dó. Hann var ótrúlega sérkennilegur karl og ég man sérstaklega eftir hlátrinum hans sem var ótrúlega smitandi. Svo eru heimsóknirnar til hans á Hverfisgötuna minnistæðar. Það var eins og að koma í kastala; málverkin voru um allt og út um allt,“ segir Tinna Stefánsdóttir barnabarn listamannsins Stefáns V. Jónssonar, betur þekktum sem Stórval.

Menningarfélag Akureyrar býður upp á leiðsögn um sýninguna „Stórval í 110 ár“ mánudagana 2. og 16. júlí klukkan 12:00 í Menningarhúsinu Hofi en það er Tinna sem sér um leiðsögnina. „Ég hafði gengið með þessa hugmynd í kollinum lengi. Við fjölskyldan eigum mikið af myndum eftir hann og mér fannst mikil synd að þær væru bara í geymslu. Mér fannst eins og fólk yrði að fá að sjá þetta og þegar ég áttaði mig á því að hann yrði 110 ára í ár hentum við þessu í framkvæmd til að hylla hann og minnast.“

Tinna segir leiðsögnina verða á léttum nótum. „Ég ætla að hafa þetta persónulegt spjall frekar en fyrirlestur. Ég þekki sögurnar á bak við einstaka verk og síðan við settum sýninguna upp hér í Hofi hefur maður fengið að heyra margar Stórvalssögur sem margar eru ansi skrautlegar.“ Leiðsögnin í Hofi er ókeypis og öllum opin.

Þann 5. júlí klukkan 11:00 fer fram listasmiðja fyrir börn þar sem börnum gefst tækifæri til að koma saman og mála sitt eigið verk í anda Stórvals. Þátttaka er ókeypis en skráning fer fram á mak.is

Til baka