Fara í efni

Góðan daginn faggi í Samkomuhúsið

Sjálfsævisögulegi heimildasöngleikurinn Góðan daginn, faggi verður sýndur í Samkomuhúsinu 17. og 18. september. Athugið, aðeins þessar tvær sýningar!

Góðan daginn, faggi er eins manns heimildasöngleikur unnin upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum. Höfundarnir eru hinsegin fólk sem öll ólust upp á landsbyggðinni, Bjarni Snæbjörnsson leikari frá Tálknafirði, Axel Ingi Árnason tónskáld úr Eyjafjarðarsveit og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri frá Hrísey. Í sköpunarferli sýningarinnar ræddu höfundar jafnframt við ótal hinsegin manneskjur og stóðu reglulega fyrir opnum leiklestrum og kynningum í tengslum við Hinsegin daga og í samstarfi við Samtökin ‘78.

Verkið tekst á við fyrirbæri eins og skömm og innhverfa fordóma með húmor og einlægni að vopni. Það minnir menningarþjóð sem státar sig af víðsýni, virðingu mannréttinda og fordómaleysi á að hugsa til þeirra félagslegu og sálrænu afleiðinga sem það hefur fyrir einstaklinga alast upp í samfélagi sem er sniðið að öðrum en þeim. Hvernig það er að tilheyra aldrei að fullu heldur eiga alltaf á hættu að þurfa að verja sig eða berjast fyrir tilverurétti sínum.

Sýningin er berskjaldandi leiðangur um skömm og mennsku og einlægt samtal við drauminn um að tilheyra. Hlátur, grátur og glæný söngleikjatónlist sem lætur enga ósnortna.

Höfundar: Bjarni Snæbjörnsson og Gréta Kristín Ómarsdóttir

Leikstjóri: Gréta Kristín Ómarsdóttir

Tónlist: Axel Ingi Árnason

Lýsing: Jóhann Friðrik Ágústsson

Stílisti: Eva Signý Berger

Sviðshreyfingar: Cameron Corbett

Framkvæmdastjóri og aðstoðarmaður leikstjóra: Hjalti Vigfússon

Flytjendur: Axel Ingi Árnason og Bjarni Snæbjörnsson

 

Umfjöllun:

„Drepfyndin var endurgerð á auglýsingu sem Bjarni lék í en þótti of „mjúkur“ og var á endanum skipt út fyrir sér „harðari“ leikara. Drepfyndin og sorgleg, eins og fleiri árekstrar hans við hið gagnkynhneigða norm…“

MBL, ÞT

 

„Góðan daginn faggi er ekki innantómt grín, heldur vel heppnað persónulegt heimildaleikhús sem skilur margt eftir hjá áhorfandanum“

RÚV-Menning, SB

 

„Bjarni á hrós skilið fyrir að takast á við þetta krefjandi verk­efni og leggja sjálfan sig að veði á þennan máta, ber­skjaldaður en á­vallt fullur hlýju. „

FBL, SJ

Til baka