Fara í efni

Fyrirlestur um eitthvað fallegt

Leikarar eru Agnes Wild, Guðmundur Felixson, Kjartan Darri Kristjánsson, Bjarni Snæbjörnsson og Sara…
Leikarar eru Agnes Wild, Guðmundur Felixson, Kjartan Darri Kristjánsson, Bjarni Snæbjörnsson og Sara Martí, sem einnig er leikstjóri sýningarinnar.

 

Í dag og á morgun mæta 1186 nemendur í 8. – 10. bekk úr 19 grunnskólum á Norðurlandi í Menningarhúsið Hof á sýninguna Fyrirlestur um eitthvað fallegt. Viðburðurinn er í boði List fyrir alla í samstarfi við Menningarfélag Akureyrar og Akureyrarbæ.

Í sýningunni kynnumst við Baldri sem er að hefja fyrirlestur um nýjasta listaverk sitt. Hann finnur að eitthvað er ekki eins og það á að vera… hann frýs. Hann er að fá sitt fyrsta kvíðakast. Yfir hann hellist ótti og fylgjumst með honum leita lausna. Við kynnumst líka öllum hinum Böldrunum, því kvíði býr í okkur öllum. Fimm leikarar túlka mörg andlit kvíðans, í sjónrænu og gamansömu leikverki. Leikarar eru Agnes Wild, Guðmundur Felixson, Kjartan Darri Kristjánsson, Bjarni Snæbjörnsson og Sara Martí, sem einnig er leikstjóri sýningarinnar. Höfundur er SmartíLab-hópurinn.

Rannsóknir sýna að á hverju ári þjáist um 12% Íslendinga af óeðlilegum eða sjúklegum kvíða. Leikverkið fjallar á gamansaman hátt um þetta erfiða málefni, með það að markmiði að vekja fólk til meðvitundar og opna umræðuna enn frekar um geðheilbrigði á Íslandi.

Í verkinu er kvíðinn skoðaður frá ýmsum sjónarhornum og kafað í tilfinningar, hugsanir, magaverki, samfélagsmiðla, geðlyf, svefntruflanir, sjálfsþekkingu, sigra, bata, hugarangur, sálarfrið og kvíðaofurhetjur.

List fyrir alla er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytis og er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt og jafna þannig aðgengi barna á grunnskólaaldri að fjölbreyttum og vönduðum listviðburðum óháð búsetu og efnahag.

Listviðburðirnir eru í öllum tilfellum unnir af fagfólki og leitast er við að gera allar listgreinar sýnilegar innan verkefnisins eins og kostur er.

Höfuðáhersla er lögð á list fyrir börn og list með börnum.

Til baka